151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[18:15]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Ég ætla ekki að halda því fram að engu megi breyta. Ég ætla ekki að halda því fram að ekki sé hægt að gera hlutina betur eða öðruvísi. En þegar við horfum á þetta frumvarp þá verð ég að viðurkenna að ég skil ekki alveg hverju er verið að reyna að ná fram. Það er ekki nægilega vel útskýrt, það er ekki nægilega vel rökstutt og það sem kannski er verra það er einhver pólitík þarna á bak við sem er rosalega illskiljanleg. Ég ætla að reyna að ræða þessi atriði aðeins. Kannski er skemmtileg leið til að nálgast þetta, herra forseti, að tala um hið góða, hið slæma og hið ljóta.

Byrjum á hinu góða vegna þess að yfirleitt er nú eitthvað gott í öllu. Lesi maður frumvarpið og greinargerðina virðist vera hér á ferðinni tilraun til að bæta umsjón nýsköpunar á Íslandi. Ég skil ekki alveg hvernig það á nákvæmlega að virka að kippa stoðunum undan núverandi fyrirkomulagi, víxla út stofnun fyrir einkahlutafélag og hrista í raun upp allt saman í staðinn fyrir að laga bara það sem fyrir er. Það er samt löngu tímabært að við skoðum heildstætt hvernig fyrirkomulagið á nýsköpun er. Nýsköpunarmiðstöð Íslands er ekki fullkomið apparat frekar en nokkur önnur stofnun. Þeir sem þekkja þar til, jafnvel þeir sem hafa unnið þar eins og ég gerði fyrir mörgum árum, fleiri hv. þingmenn hafa gert og margir í samfélaginu, vita alveg að ekki er allt fullkomið þar innan húss. Og það sem meira er, allir starfsmenn sem ég hef talað við, bæði núverandi og fyrrverandi, eru alveg til í að viðurkenna að ýmislegt mætti betur fara. Hið góða í þessu máli er að hér er alla vega gerð tilraun til að laga eitthvað. En ég skil ekki hvernig það að fara nákvæmlega þessa leið á að ná því markmiði. Þar með er eiginlega allt það góða sagt sem ég get fundið til. Það er gott að sýna þá viðleitni að reyna að laga hlutina þegar þeir gætu verið betri.

Hið slæma er þó miklu stærra. Með því að fara þessa tilteknu leið varð til mikil óvissa. Það varð til rosaleg óvissa hjá öllu starfsfólki stofnunarinnar nú í janúar þegar tilkynnt var að það ætti að leggja hana niður án þess að gerð væri grein fyrir áætlun um hvernig það skyldi fara fram, hvað skyldi koma í staðinn eða hvernig þetta myndi allt saman virka. Meira að segja í sumar lá það ekki fyrir. Það sem hefur gerst, og er afleiðing af þessari óvissu, er að mikilvæg vinna, sem í venjulegu árferði gengur yfirleitt fyrir sig með áframhaldandi styrkumsóknum, fjármögnunarferlum, niðurstöðuskýrslum og öðru, hefur smám saman dregist saman. Alla vega ríkir svo mikil óvissa um framtíð ýmissa einstakra verkefna að heyrst hefur að fólk sé ekki endilega til í að leita eftir frekari fjármögnun enda ekki vitað hvort þeir sem starfa við verkefnin verði í vinnu eftir áramót.

Nú er vissulega búið að fresta þessu fram í maí. Ég veit ekki hvort það gerir nokkuð til að bæta stöðuna. Mér sýnist á frumvarpinu að öll óvissan verði í raun áfram til staðar. Jú ókei, við vitum núna það sem við vissum ekki fyrr en frumvarpið kom fram, kannski var aðeins ýjað að því í drögum sem birtust í samráðsgáttinni, en við vitum það alla vega núna að samkvæmt upplegginu á að taka inn í þetta hina svokölluðu Elo-deild ásamt Rb-deildinni, þ.e. Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, — herra forseti, ég er að reyna að rifja upp hvort Elo standi ekki fyrir efni, líftækni og orka eða hvort það var eitthvað annað; jú, segjum það, efnis-, líftækni- og orkudeild var það — og svo vissulega hluta frumkvöðlaseturs en menn vissu hins vegar ekki nákvæmlega hvaða hluta þess. Það er sagt að mótuð verði umgjörð um Fab Lab smiðjur sem er alveg frábært. Ég fagna því kannski meira en aðrir. Að vísu segir ekkert um hver sú umgjörð skuli vera. Nú veit ég að staðið hefur til í mörg ár að móta þessa umgjörð en hvar er hún?

Það eru ýmsir punktar hérna en allir þessir punktar benda bara í áttina að óvissu, óvissu sem er ekki verið að uppræta heldur er verið að ýta henni á undan sér, alla vega fram í maí á næsta ári. Þetta er rosalega slæmt vegna þess að þegar maður er með mikilvæga stofnun eins og Nýsköpunarmiðstöð Íslands, sem vinnur mikilvæga vinnu í samfélaginu, hefur það hvorki jákvæð áhrif á starfsfólkið, starfsandann né vinnuna, sem reynt er að vinna þar innan húss, ef byrjað er á því í janúar 2020 að kasta öllu upp í loft og búa til einhvers konar óreiðu. Svo er því fylgt eftir með meiri og meiri óreiðu alveg til ársloka. Þegar þangað er komið er því lofað að óreiðan muni halda áfram, alla vega fram í maí. Mér finnst það frekar slæmt.

Herra forseti. Það ljóta í stöðunni er að þetta gerist ekki í tómarúmi. Jafnvel í venjulegu árferði hefði maður viljað að við nálguðumst þessa vinnu á skipulagðan og uppbyggilegan hátt, kannski að byrjað væri á að eiga samtöl við þá sem til þekkja, unnið markvisst að því að greina hver vandamálin væru, við áttuðum okkur á umfangi þeirrar endurskipulagningar sem þörf væri á og síðan færum við skipulega af stað í að reyna að átta okkur á því hvernig ætti að breyta hlutunum en tilkynntum þetta ekki bara í janúar og fylgdum því eftir. Janúar var ekki bara augnablikið þar sem tilkynnt var að fara ætti í þessa óreiðuvegferð heldur var það líka þá sem heimsfaraldur skall á með tilheyrandi efnahagssamdrætti, með tilheyrandi atvinnuleysi. Þetta bjó til ástand þar sem fólk hafði eðlilega bara rosalegar áhyggjur. Og það sem verra er þá leit þetta út, og lítur satt að segja að einhverju leyti enn út, eins og enginn skilningur sé á því hvað nákvæmlega fari fram þarna innan húss. Auðvitað er það að einhverju leyti skiljanlegt vegna þess að þetta er stór stofnun. Það er margt að gerast þarna inni og það er hátt flækjustig. Satt að segja veit ég ekki hvort hægt sé að ætlast til að nokkur hafi fullkomna yfirsýn frekar en að nokkur hefur yfirsýn yfir allar rannsóknir sem fara fram innan Háskóla Íslands, þó svo að það sé vissulega stærri stofnun. Þegar hlaupið er af stað með þeim hætti sem raun ber vitni, svo að ég komi inn á það sem ég lagði upp með, þá er einhver pólitík í gangi sem er erfitt að skilja. Það er hætt við að þessi pólitík muni verða til þess að ringulreiðin haldi áfram, jafnvel í nokkur ár, vegna þess að það tekur smátíma að finna nýjan takt eftir að hlutir breytast.

Hér á að breyta hefðbundinni ríkisstofnun — kannski svolítið óhefðbundinni að mörgu leyti, hún varð náttúrlega til sem samsuða margra ólíkra stofnana á sínum tíma og hefur fylgt óvenjulegri aðferðafræði, en góðri þó, með mikilli áherslu á landsbyggðina, mikilli áherslu á að hver og einn rannsakandi fái ákveðið sjálfstæði sem er bara flott — ekki í opinbert hlutafélag, eins og því miður hefur verið ákveðin tilhneiging til að gera undanfarin ár með mjög misjöfnum árangri, heldur í einkahlutafélag sem nær einhvern veginn að hafa enn þá minni tengsl við ríkið sem væntanlega mun koma að fjármögnun þess til framtíðar. Þegar maður horfir á hvernig á að gera þetta veltir maður fyrir sér: Hvert er nákvæmlega markmiðið? Þegar forræði yfir hlutafé á að vera á hendi fjármálaráðuneytisins, eins og segir í 4. gr. frumvarpsins, veltir maður fyrir sér hvað nákvæmlega eigi að gera við stjórn þessa apparats þannig að það stuðli að meiri nýsköpun og betri nýsköpun, svo að ekki sé farið út í, á þeim stutta tíma sem ég á eftir, allar spurningarnar um fjármögnunina og hvernig þessu á að miða áfram. Nei nei, það á bara að verða til einkahlutafélag, það á að vera skipulagt einhvern veginn og einhvern tímann munum við komast að því, kannski í maí, hvernig það er nákvæmlega hugsað.

Herra forseti. Þetta lyktar örlítið af Kísildalsvæðingu frekar en að litið sé á þetta sem grunnstoðir nýsköpunar fyrir stórt samfélag. Ísland er kannski ekki rosalega stórt samfélag en þar er mikil fjölbreytni. Fólk er að gera alls konar hluti og það þarf vitanlega ýmiss konar aðstoð við það. Það er ekki auðvelt að stofna fyrirtæki á Íslandi og það er heldur ekki ódýrt en sér í lagi er það ekkert sérstaklega auðvelt. Margar hættur steðja að fólki og það reiðir sig á margvíslega þjónustu á fyrstu stigum þess að vera frumkvöðlar. Þegar maður skoðar frumvarpið finnst manni markmiðin einhvern veginn þau að breyta stofnuninni bara yfir í afgreiðslustofnun fyrir fjármuni. Þegar maður setur þetta í samhengi við Kríu og aðrar breytingar, t.d. á Tækniþróunarsjóði, er svolítið eins og fjármunum verði bara ausið í stöndug fyrirtæki í staðinn fyrir að veita þá mikilvægu handleiðslu sem nú er til staðar. Ég vona að handleiðslan haldi áfram. Ég vona að áfram verði ýmiss konar námskeið í boði fyrir frumkvöðla og allt annað. En mér finnst það ekki augljóst af þessu frumvarpi, langt í frá. Hugmyndin um einhvers konar Kísildalsvæðingu felur kannski í sér von um að á Íslandi verði til fleiri alþjóðleg stórfyrirtæki. Og það væri fínt, það væri frábært. En við þurfum líka litlu fyrirtækin, við þurfum alla fjölbreytnina. Ísland með fleiri Íslenskar erfðagreiningar og Marel og Össur og CCP væri alveg flott en það eru svo mörg fyrirtæki á Íslandi sem eru ekki að fara út í stóra hluti á heimsvísu en skipta samt máli fyrir íslenskt samfélag. Stuðningsnetið verður að vera gott í því samhengi.

Ég gæti svo sem talað lengur um þetta en að vísu leyfir tíminn það ekki. Svo að ég dragi þetta saman að lokum vekur frumvarpið upp fullt af spurningum sem mér skilst að illa hafi gengið að fá svar við, hvort sem það er núverandi starfsfólk hjá Nýsköpunarmiðstöð, þeir sem reiða sig á þessa þjónustu, fjárlaganefnd þingsins eða fleiri aðilar sem hafa verið að spyrjast fyrir. Frumvarpið svarar ekki mjög miklu. Það á eftir að fara í meðferð í þingnefnd, ég veit ekki alveg hvort það fellur undir atvinnuveganefnd en líklegast. Mikið vona ég að einhverjum þessara spurninga verði svarað með fullnægjandi hætti. Ástandið sem hefur verið stærstan hluta árs er ekki til þess að róa neinar taugar. Þetta ferli hefur hvorki verið mjög trúverðugt né hægt að leggja mikið traust á það. Jú, eflaust eru til svör við öllum þessum spurningum en það er ekki nóg að þau séu til, þau verða líka að koma fram.