151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[19:10]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er mikill gleðidagur og ég fagna því mjög að við séum aftur að fá hingað inn tillögu um lengingu fæðingarorlofs upp í 12 mánuði. Það var einmitt það sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur samþykkti hér á kjörtímabilinu 2009–2013. En því miður var það fyrsta verk ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, eftir stjórnarskipti, að stytta fæðingarorlofið aftur niður í níu mánuði. Ég fagna því að við ætlum að hafa það 12 mánuði en vil spyrja út í atriði er varðar nálgunarbann. Það er talað um nálgunarbann gagnvart barni, að ef foreldri sæti nálgunarbanni gagnvart barni þá færist réttur foreldris sem sætir nálgunarbanni yfir á hitt foreldrið, umönnunarforeldrið. Nú er nálgunarbann yfirleitt ekki gegn barni heldur gegn foreldri og ég spyr því ráðherra: Hvernig sér hann fyrir sér að hægt sé að verja það foreldri sem verður fyrir ofbeldi eða er ástæða þess að nálgunarbanni er beitt, af því að yfirleitt er það milli fullorðinna? Þetta er fyrri spurning mín.