151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[22:04]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni fyrir ræðu sína. Þetta mál er vissulega mikið jafnréttismál og eins og gefur að skilja höfum við kannski mismunandi skoðanir á því hvernig jafnrétti verði best náð og líka hvernig jafnræði sé tryggt. Ég er í sjálfu sér alveg sammála hv. þingmanni að einhvern veginn þarf að skikka karla til að taka fæðingarorlof og taka virkan þátt í uppeldi barna sinna. Spurningin er hvort nákvæmlega þessi leið sé rétta leiðin og hvort nákvæmlega þessi skipting sé sanngjörn skipting. Ef við höfum 12 mánuði til skiptanna og það stendur til að skipta þeim nákvæmlega jafnt þá velti ég fyrir mér hvort það sé raunverulega sanngjarnt gagnvart konum sem bera þyngri byrðar þegar kemur að barneignum. Vilji þær fara að ráðleggingum sérfræðinga, ljósmæðra, lækna, heilbrigðisstarfsfólks, um það sem er bæði þeim og barni þeirra fyrir bestu hætta þær að vinna mánuði fyrir barnsburð, nokkurn veginn sama hvernig heilsa þeirra er, vegna þess að álag og streita, sérstaklega á lokametrunum, er talin auka líkurnar á fyrirburafæðingu og valda hættu á alls konar fylgikvillum.

Samkvæmt þessum lögum er konum ætlað að taka það af sjálfstæðum rétti sínum til fæðingarorlofs og verða þær þá mánuðinum fátækari með barninu sínu. Ef við bætum svo við þeirri staðreynd að flestir foreldrar, eða a.m.k. margir foreldrar, kjósa að taka fyrsta mánuðinn saman þá er orðið úr töluvert færri mánuðum að moða fyrir konuna til að vera með nýfæddu barni sínu, einfaldlega vegna þess að hún er kona. Hún verður að taka fyrstu tvær vikurnar (Forseti hringir.) samkvæmt lögunum líka. Hvar er jafnræðið í því?