151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

staða mála á vinnumarkaði nú á tímum Covid-19, munnleg skýrsla félags- og barnamálaráðherra. - Ein umræða.

[11:14]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta yfirlit. Það var eins og að lesa blöðin, upptalning á því sem liggur fyrir, bæði í blöðum og á netinu, um fjölda atvinnulausra o.s.frv. en það er engin sýn. Það kom ekkert fram um það hvað á að gera inn í framtíðina og það er ekki að ófyrirsynju, herra forseti, að nú í morgun segir framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins í Fréttablaðinu, með leyfi forseta:

„Það er kominn tími til að draga markvisst úr þessari langvarandi óvissu og setja fram skýra áætlun um aðgerðir til loka faraldursins.“

Þetta er akkúrat það sem við t.d. í Miðflokknum höfum gagnrýnt alveg frá upphafi, þ.e. að þegar menn fóru að hrökklast í aðgerðir hér þá voru þær til skamms tíma. Búið er að framlengja aðgerðir sem fólk bíður eftir í ofvæni til svona þriggja mánaða í senn. Það er náttúrlega algerlega óviðunandi og óþolandi ástand.

Nú segir hæstv. ráðherra: Við ætlum að bíða eftir bóluefninu. Það er náttúrlega ágætt í sjálfu sér en það er engin stefna. Hvað ætla menn að gera? Ég ætla ekkert að lasta það að fólk fái að komast á námskeið eða að einhverjir verði ráðnir með stuðningi en hvernig ætla menn að gera þetta? Hvernig ætla menn að haga sér næstu 18 mánuði t.d.? Í Fréttablaðinu í morgun er haft eftir Halldóri Benjamín Þorbergssyni, svo ég vitni aftur í hann, með leyfi forseta:

„Samtök atvinnulífsins kalla eftir því að stjórnvöld nýti reynsluna af baráttunni við útbreiðslu kórónuveirunnar og útbúi skýran ramma um aðgerðir næstu mánaða.“

Þess vegna verð ég að spyrja hæstv. ráðherra: Hvað ætlar hann og ríkisstjórnin að gera t.d. næstu 18 mánuði? Á að halda áfram að framlengja aðgerðir um svona viku, hálfan mánuð eða tvo mánuði í senn (Forseti hringir.) eða hvað ætlar ríkisstjórnin að gera?