151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

staða mála á vinnumarkaði nú á tímum Covid-19, munnleg skýrsla félags- og barnamálaráðherra. - Ein umræða.

[12:07]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Varðandi spurninguna um Byggðastofnun þá þekki ég það ekki, hún heyrir undir hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og ég viðurkenni það fúslega að ég er ekki nógu vel heima í því hvort Byggðastofnun horfi sérstaklega til þessa svæðis. En það væri fullkomlega eðlilegt miðað við það sveiflukennda hagkerfi sem Suðurnesin sannarlega eru.

Varðandi hina spurninguna, um opinber störf og Suðurnesin, þá hefur, í tengslum við aukinn mannafla sem bæst hefur við hjá Vinnumálastofnun, eðli máls samkvæmt bæst aðeins við á Suðurnesjum, á skrifstofuna þar, til að þjónusta þann fjölda sem er atvinnulaus. En við höfum líka verið í viðræðum við Reykjanesbæ um verkefni sem er kannski ekki hugsað í þeim tilgangi beint að flytja opinber störf á Suðurnes en mun valda því að opinberum störfum mun fjölga á Suðurnesjum. Það er verkefni sem lýtur að öryggisvistun, einstaklingum sem dæmdir eru til öryggisvistunar. Það hefur verið á hendi sveitarfélaganna. Við erum að undirbúa nýja löggjöf sem tekur þetta að einhverju leyti aftur yfir til ríkisins og er unnið í góðu samstarfi við sveitarfélögin, við heilbrigðisráðuneyti og menntamálaráðuneyti. Hluti af því hefur verið uppbygging á sérstöku búsetuúrræði fyrir þessa einstaklinga og hafa viðræður verið í gangi við Reykjanesbæ um slíkt. Eðli máls samkvæmt mun það skapa á bilinu 20–30 störf á svæðinu. Við höfum líka verið í samtali við Keili um að setja upp sérstaka námsbraut eða sjá um námsúrræði fyrir einstaklinga sem þessu sinna, en aukreitis yrði talsverð atvinnusköpun af byggingu þessa búsetuúrræðis, þó að það verði líklega ekki fyrr en á þarnæsta ári sem sú framkvæmd færi á fullt. En það er búið að tryggja fjármagn til hennar líka.