151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

staða mála á vinnumarkaði nú á tímum Covid-19, munnleg skýrsla félags- og barnamálaráðherra. - Ein umræða.

[12:15]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Þessi atvinnuleysiskreppa sem við Íslendingar búum nú við bítur fólk misfast. Fyrirtæki í ferðaþjónustu verða illa úti og samfélögin sem hafa byggt upp atvinnulíf sitt og fjárfestingar í kringum hana, þar nefni ég Suðurnesin sérstaklega. Veitingageirinn, menningar- og listastarf og íþróttastarf hefur að sama skapi misst meginhluta tekna sinna en einhverra hluta vegna njóta þessir aðilar ekki nema brots af þeim sérstaka stuðningi sem ríkisstjórnin hefur reynt að setja á fót. Ég verð að segja að ástæða þeirrar stöðu er mér ekki alveg ljós. Kannski ráðherra geti varpað einhverju ljósi á það.

Ef þetta mikla atvinnuleysi dregst á langinn þá vitum við að það ýtir undir margvísleg langvinn, félagsleg vandamál. Áhrif af langvarandi tekjumissi geta elt fólk í mörg ár, ekki bara neikvæð áhrif á eignamyndun og aukin skuldasöfnun heldur er líka bein fylgni á milli tekjumissis og heilsumissis, bæði andlegs og líkamlegs. Þess vegna var sárt að horfa upp á ríkisstjórnina leggja fram fjárlög núna þar sem samningar Sjúkratrygginga við sálfræðinga eru ekki fjármagnaðir, líkt og Alþingi óskaði eftir eindregið síðastliðið vor. Þetta er úrræði sem hæstv. félagsmálaráðherra ætti að mínu mati að berjast fyrir með kjafti og klóm vegna þess að fólkið í viðkvæmustu stöðunni á þessum erfiðu tímum þarf einfaldlega slíkan málsvara í ríkisstjórn.

Í heild má segja að núverandi ástæða varpi ljósi á ákveðið lykilvandamál. Hæstv. félagsmálaráðherra ber ábyrgð á úrræðum fyrir atvinnulaust fólk en ráðherrar annarra málaflokka hafa verkfæri til að vinna á grunnvandanum, verkfærin til að draga úr atvinnuleysinu með því að beina stuðningi í mótvægisaðgerðir sem hafa mest áhrif. Kristrún Frostadóttir hagfræðingur er meðal þeirra sem hafa gagnrýnt að stór hluti fjármagnsins sem settur hefur verið í umferð hafi runnið inn á fasteignamarkaðinn í stað þess að styðja við fólkið sem hefur orðið fyrir mesta tekjufallinu. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hér hvernig hann hafi beitt sér í ríkisstjórnarsamstarfinu til að leiðrétta þann grunnvanda sem viðheldur þessu háa atvinnuleysi og neikvæðum afleiðingum þess.