151. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2020.

greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar á tímum kórónuveirufaraldurs .

362. mál
[17:00]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Þetta er klárlega gott mál. Það tekur á þeim vanda sem viðbúið er að íþróttafélögin standi frammi fyrir, a.m.k. framan af næsta ári, og tekur á þeim vanda sem íþróttafélögin hafa staðið frammi fyrir frá því að þeim var gert að loka dyrunum að mestu leyti síðastliðið haust. Það hefur komið fram hér í andsvörum mínum við hæstv. ráðherra að ætlunin er að búa svo um hnúta að félögin geti sótt um styrki nokkrum sinnum á tímabilinu, þ.e. ekki er ætlast til að þau þreyi þorrann fram á næsta haust og komi þá með umsókn eða fái þá greiddan kostnaðinn sem orðinn er. Það er mjög mikilvægt. Satt best að segja er ég næsta viss um að þau yrðu ansi mörg sem ekki næðu að brúa það bil, sérstaklega í ljósi þess að við stöndum frammi fyrir þeirri staðreynd að þau hafa verið í vanda frá því að þessi óværa skall á okkur í ársbyrjun og frá því að sóttvarnaaðgerðir urðu að veruleika.

Þetta hefur haft margþætt áhrif á starfsemi íþróttafélaga. Þau hafa tekist á við skerðingar á tekjum og starfsemi og reyndu framan af að gera það án þess að það kæmi niður á starfi þeirra. Síðastliðið vor var það vissulega skoðað töluvert hér hvernig hægt væri að koma til móts við þau. Niðurstaða stjórnvalda var sú að það væri mjög erfitt. Það verður að segjast eins og er að þau hafa búið við töluverðan bútasaum. Afleiðingin er sú að starfsemi þeirra hefur borið skaða af og hann er margþættur. Við erum í fyrsta lagi að tala um ráðningarsamband íþróttafélaga við starfsfólk; almenna starfsmenn og þjálfara, hvort sem það eru þjálfarar afreksíþróttafólks eða þeirra sem yngri eru. Við vitum það næsta mörg að stórgóður og á köflum frábær árangur okkar Íslendinga á íþróttasviðinu er ekki tilviljun. Hann er fyrst og fremst til kominn vegna þess að íþróttahreyfingin okkar hefur borið gæfu til að laða til sín frábært starfsfólk og halda því, leyfa því að blómstra, leyfa því að beita áhrifum sínum á ungviðið okkar og síðan að þjálfa íþróttaafreksfólk. Þetta samstillta átak er ekkert einfalt mál þar sem viðmiðið hefur verið mjög hátt þegar starfsfólk er ráðið inn. Því miður er einfaldlega mjög auðvelt að missa dampinn þar. Þess vegna er þetta mál jákvætt.

Við erum með halla í ár. Við erum því miður komin á þann stað að þetta er ekki lengur ófyrirséður vandi. Við erum bara orðin vön þessu. Þess vegna sakna ég þess að hér sé ekki tekið utan um allt málið í heild sinni. Ég hef ástæðu til að hafa áhyggjur af því hvernig og hvenær sá hluti verður leystur sem er ekki verið að kynna hér, sem er ekki á herðum hæstv. félagsmálaráðherra og er ekki leystur í þessu frumvarpi, þ.e. hvernig við mætum tekjufalli íþróttafélaganna frá upphafi árs. Við erum að tala um alls kyns tekjufall. Á tímabili fækkaði iðkendum. Það kallar á tekjufall. Auglýsingatekjur drógust saman vegna þess að íþróttastarfið var ekki svipur hjá sjón í sumar. Það er tekjufall. Fjölmörg íþróttafélög nýta sér einstaka viðburði og stórmót yfir sumarmánuðina til að þreyja þorrann yfir veturinn. Þessi mót voru ekki sumarið 2020. Það er tekjufall. Og það mætti lengi halda svona áfram.

Ég hef áhyggjur af því að hér sé verið að stíga skref sem nær bara visst langt og að við sjáum ekki hvenær og hvernig fortíðarvandi — ef hægt er að tala um fortíðarvanda þegar talað er um yfirstandandi ár — og sá vandi sem íþróttafélögin standa frammi fyrir núna verður leystur í gegnum þennan sjóð sem á að stofna, sem á að fjármagna, sem á að ákveða hversu mikill peningur fer í, sem á að ákveða hvernig verði sótt úr, sem á að ákveða hvenær íþróttafélögin fá peninginn, sem á að ákveða hvaða skilyrði eru sett o.s.frv. Ég skil ekki af hverju þetta er ekki núna. Nægilega langur er listi stjórnvalda yfir mál sem verið er að flytja núna. Það hefði t.d. verið alveg kjörið tækifæri til að næsta mál hér á eftir yrði það mál vegna þess að við þurfum að sjá heildarmyndina.

En svo að ég beini sjónum að þessu tiltekna máli þá er ég ánægð með að heyra það viðhorf hæstv. ráðherra — og það er alla jafna og því ber að hrósa — að hann taki vel í það að viðkomandi fastanefnd, í þessu tilfelli velferðarnefnd sem fær málið til umfjöllunar, komi með tillögur í samtali við hæstv. ráðherra eða aðra hlutaðeigandi og betrumbæti málið eins og þörf krefur. Það er alveg rétt að mál eru stundum unnin það hratt að eitthvað dettur upp fyrir. Þá er kannski spurningin: Er ástæða til þess að nefndin skoði það að útvíkka þetta? Nú erum við að tala um að þetta mál verði hjá velferðarnefnd ef að líkum lætur. Nú veit ég ekki frekar en aðrir, ímynda ég mér, hvernig hæstv. ráðherra íþróttamála ætlar að ganga frá sinni hlið. Er það þingmál? Fer það í aðra nefnd? Þetta er einfaldlega óþarfa flækjustig. Við vitum það og reynslan síðustu mánuði hefur sýnt okkur að flækjustigin hjálpa ekki til í aðstæðunum. Það er ekki kjarnorkueðlisfræði að hjálpa íþróttafélögum landsins, sem við erum öll sammála um að gegni gríðarlega mikilvægu hlutverki í íslensku samfélagi, í þessum aðstæðum. Og þó svo að kostnaðurinn sé ekki lítill er hann ekki stór í hinu stóra Covid-samhengi.

Ég minni á, sem ætti næstum því að vera óþarfi, fjöldann allan af rannsóknum sem sýna okkur svart á hvítu hversu mikilvæg íþróttaiðkun er fyrir börn, fyrir unglinga og fyrir fullorðið fólk, hversu mikilvæg hún er fyrir andlega hreysti okkar og líkamlegt heilbrigði, hversu mikilvægt það er að iðka íþróttir og hversu mikilvægt það er að fylgjast með íþróttum. Það ætti að vera mjög ofarlega á forgangslista að tryggja að íþróttafélögin okkar komi ekki haltrandi út úr Covid-fárinu. Ég hlakka til þeirrar vinnu sem fram undan er í hv. velferðarnefnd. Mig langar til að ljúka máli mínu á þessu: Höfum í huga að það eru 70% barna á aldrinum 6–18 ára sem stunda íþróttir í skipulagðri starfsemi. Það eru 70% barna sem við erum að tala um hér. Það eru iðkendur sem við erum að aðstoða með þessu í gegnum íþróttafélögin.