151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

horfur um afhendingu bóluefnis vegna Covid-19, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[12:35]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem kemur fram í máli hv. þingmanns að Pfizer sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem fram kom að ekki hefði vafist fyrir fyrirtækinu að framleiða bóluefni eða hafi sendingu verið seinkað. Það kom fram í tilkynningu frá Pfizer. Yfirlýsingin kemur að sögn fram vegna opinbers umtals og umræðna um að framleiðsla og dreifing bóluefnis Pfizer sé vandkvæðum bundin, sem kom upp víða og fyrst og fremst í Bandaríkjunum á þeim tímapunkti.

Viðbrögð heilbrigðisráðuneytisins við þessu markast af því að þessar fréttir frá Pfizer virðast eiga við Bandaríkjamarkað. Efnið sem Evrópusambandið, Ísland og Noregur fá afhent er framleitt á meginlandi Evrópu og þar hefur orðið þessi töf vegna hráefnisskorts. En hins vegar er framleiðslan nú komin á fulla ferð. Það eru þær upplýsingar sem við fáum og fengum í morgun. Við höfum undirritað samkomulag um 170.000 skammta frá Pfizer og það þýðir í raun og veru bóluefni fyrir 85.000 manns, og það heldur.

Sú lýsing sem ég gaf áðan á dreifingaráætluninni á fyrsta ársfjórðungi er samkvæmt nýjustu upplýsingum, frá því í morgun. Og þannig mun það verða, að við munum smám saman fá upplýsingar um afhendingaráætlanir. Óvissuþátturinn mun áfram verða fyrir hendi, þ.e. hvenær og hversu mikið kemur í hverri sendingu frá hverju fyrirtæki. En það sem við höfum núna í hendi og getum sagt frá er áætlun varðandi Pfizer á fyrsta ársfjórðungi og það liggur fyrir.