151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

fjáraukalög 2020.

337. mál
[16:43]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég ætla að leyfa mér í þessari pontu á þessum tíma að senda kveðjur austur á Seyðisfjörð þar sem ástandið er vægast sagt hrikalegt. Ég trúi því að við hugsum öll hlýtt til þeirra sem takast á við þær náttúruhamfarir sem þar ganga yfir.

Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar vegna fimmta fjárauka á þessu ári. Eins og gengur og gerist fékk nefndin umsagnaraðila á fundi sem og fulltrúa nokkurra ráðuneyta. Þetta eru sannarlega óvenjulegir tímar og vonandi í eina skiptið sem við þurfum að vinna svona marga fjárauka. En þessi er sá fimmti á árinu, sem er jú bein afleiðing faraldursins.

Í greinargerðinni með frumvarpinu er gerð grein fyrir nýtingu varasjóða málefnasviðanna sem nýta á til þess að draga úr þörfinni fyrir fjáraukalög. Ríkisendurskoðun hefur bent á nauðsyn þess að fullnýta varasjóði málefnasviða áður en kemur að mati á því hvort útgjöld falli undir skilyrði fjáraukalaga eður ei og undir það er hægt að taka. Flestar útgjaldabreytingar í frumvarpinu eru til komnar vegna heimsfaraldursins. Þeim má skipta í tvennt, annars vegar vegna aukins kostnaðar sem faraldurinn hefur haft í för með sér og hins vegar auknar fjárheimildir vegna viðbótarmótvægisaðgerða sem ætlað er að milda félagsleg og efnahagsleg áhrif faraldursins.

Heildarútgjöld í þessu fjáraukalagafrumvarpi eru um 65 milljarðar og er það um 6,5% aukning frá áður samþykktum fjárheimildum fjárlaganna, og ef fyrri fjögur fjáraukalagafrumvörp eru talin með er aukning fjárheimilda á árinu tæp 17% vegna fjárlagaársins. Á bls. 51 í greinargerðinni er ágætisyfirlit í töflu þar sem sjá má tilefni tillagna í frumvarpinu og í nefndarálitinu er það dregið ágætlega saman.

Helstu útgjaldaliðir eru tekjufallsstyrkir, sem eru ríflega 23 milljarðar, og aðrar mótvægisráðstafanir, í kringum 2 milljarða, sem eru vegna aukinna framlaga til sveitarfélaga, og sama fjárhæð vegna tímabundinnar lengingar tekjutengdra atvinnuleysisbóta. Hlutabótaleið og laun í sóttkví hafa verið endurmetin og er ljóst að leiðirnar hafa ekki verið nýttar til fulls miðað við fyrri áætlanir. Hér er því lögð til lækkun um tæplega 14 milljarða vegna þess.

Af öðrum útgjöldum en þeim sem teljast Covid-tengd má nefna 5,5 milljarða vegna endurmats á lífeyrisskuldbindingum og 2 milljarða vegna fjölgunar þeirra sem fá endurhæfingarlífeyri. Einnig hefur endurmat á lyfjakostnaði, erlendri sjúkraþjónustu og fleira verið fært til bókar um 1,5 milljarða. Endurmat á útgjaldahorfum ellilífeyris leiðir til 1,4 milljarða hækkunar. Önnur tilefni vega minna og eru skýrð í greinargerð frumvarpsins.

Við endurmat á afkomu ríkissjóðs vegna yfirstandandi árs má sjá, að teknu tilliti til breytingartillagna við frumvarpið, að gert er ráð fyrir tekjulækkun upp á um 115 milljarða og að tekjur ríkisins verði tæplega 800 milljarðar eða lækki um 13%. Gert er ráð fyrir útgjaldaaukningu upp á 149 milljarða umfram fjárlög. Eðli máls samkvæmt leiðir það til þess að afkoma ársins verður miklum mun lakari en upphaflega var gert ráð fyrir.

Í greinargerð frumvarpsins er yfirlit sem sýnir glöggt efnahagsleg áhrif faraldursins þegar áætlun fjárlaga er borin saman við núverandi horfur. Eins og fram hefur komið má rekja breytingarnar að stærstu leyti til viðbragða við efnahagslegum áhrifum heimsfaraldursins og meiri hluti nefndarinnar hefur rakið þau viðbrögð í nefndaráliti sínu vegna fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2021. Auk þess er gerð grein fyrir þeim í kafla greinargerðar í þessu fjáraukalagafrumvarpi sem fjallar sérstaklega um endurmat á afkomu ársins 2020.

Ég ætla aðeins að fara yfir breytingartillögur sem hér eru lagðar til, þ.e. bæði í frumvarpinu sjálfu þegar það kom fram, og svo þær viðbætur sem meiri hluti fjárlaganefndar gerir hér að tillögum sínum. Umfangsmestu breytingartillögurnar eru skýrðar í kaflanum sem heitir Breytingartillögur. Þær taka eingöngu til gjaldahliðar fjárlaga auk heimildargreina í 5. og 6. gr. fjárlaga. Áætlun um tekjur er ekki uppfærð í breytingartillögum en skilar sér í endurmati á afkomuhorfum.

Þær breytingar sem hér eru lagðar til hækka gjöldin á rekstrargrunni um ríflega 5 milljarða og einnig er gerð tillaga um hækkun greiðsluheimildar um 336 milljónir vegna tapaðra rekstrartekna. Mesta aukningin, tæpir 2 milljarðar, er vegna breyttrar framsetningar á umfangi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, en það hefur þó ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs þar sem gert er ráð fyrir samsvarandi hækkun rekstrartekna á móti gjaldaheimildinni. Landspítalinn fær 1,6 milljarða vegna Covid-kostnaðar, m.a. vegna hlífðarbúnaðar, lyfja og tækjabúnaðar sem keyptur var vegna faraldursins. Einnig er hér ríflega 1.200 milljóna hækkun fjárheimilda vegna styrkja til nýsköpunarfyrirtækja þar sem endurgreiðslur vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar verða umfram áætlanir sem þessu nemur.

Þá eru lögð til framlög á sviði menningar og lista til að styrkja rekstur þeirra, enda er tekjufallið nánast algjört, eins og við þekkjum. Hvort tveggja er í frumvarpinu og í viðbótartillögum, en þar má nefna Þjóðleikhúsið, Sinfóníuhljómsveit Íslands, Listasafn Íslands, Menningarfélag Akureyrar, Borgarleikhúsið, Þjóðminjasafnið, Hörpu og fleiri. Gerðar eru um 60 millj. kr. millifærslur vegna tekjutaps Matvælastofnunar vegna áhrifanna af Covid-19. Þar er líka verið að mæta raunkostnaði vegna samnings um bakvaktir dýralækna. Hér er lögð til 50 millj. kr. aukning til RÚV til viðbótar við þær 55 milljónir sem eru í frumvarpinu. Eins og svo margt annað er það til komið vegna heimsfaraldursins.

Tæplega 450 milljónir bætast við framhaldsskólastigið, sem er aðallega vegna fjölgunar nemenda, og sama á við í háskólunum þar sem framlagið hækkar um tæpar 500 milljónir. Til viðbótar er svo lögð til 140 millj. kr. millifærsla af rekstrarfjárveitingu Landbúnaðarháskóla Íslands yfir á fjárfestingarheimild hans, en skólinn hefur staðið í verulegum fjárfestingum á árinu. Þar er m.a. um að ræða endurbætur á starfsstöð skólans að Reykjum í Ölfusi. Skólinn hefur einnig gert átak í endurnýjun á tækjum og búnaði, en umtalsverð uppsöfnuð þörf var fyrir hendi. Fyrir vikið var staðan á fjárfestingarframlögum skólans í október neikvæð um 90 milljónir og er millifærslunni ætlað að rétta þá stöðu af og mæta þeim fjárfestingum sem áætlaðar eru það sem eftir lifir árs.

Eins og fjallað var um í lokaatkvæðagreiðslu áðan þekkjum við að menning, listir og íþrótta- og æskulýðsmál hafa víða farið illa út úr faraldrinum. Hér gerum við t.d. tillögu um 30 millj. kr. framlag vegna tapaðra sértekna safnastofnana. Leggur meiri hluti fjárlaganefndar til að við úthlutunina verði m.a. horft til Listasafns Íslands sem farið hefur illa út úr þessu ástandi. Eins og ég sagði áðan fær Sinfóníuhljómsveitin 90 milljónir, af því að þar er gert ráð fyrir að tapið nemi allt að 250 millj. kr. En auðvitað er frádreginn kostnaður sem verður líka til vegna ástandsins og þar af leiðandi þarf þessar 90 millj. kr. á milli til að rétta reksturinn af. Ljóst er að ekki er svigrúm innan varasjóðsins til að mæta þessu nema að litlu leyti, eins og ég nefndi í upphafi að Ríkisendurskoðun hafi bent á að þyrfti að gera. Eins og ég nefndi áðan eru hér lögð til framlög til Menningarfélags Akureyrar, um 20 millj. kr., og 50 millj. kr. til Borgarleikhússins og Skaftfell á Seyðisfirði fær 10 millj. kr., enda er ástandið vægast sagt erfitt þar um slóðir.

Lagður er til sérstakur stuðningur við æskulýðsfélögin, 50 milljónir. Markmiðið er að tryggja áfram faglegt æskulýðsstarf og rekstrargrundvöll félaganna og er þessi tillaga hluti af 820 millj. kr. stuðningi til íþrótta- og æskulýðsfélaga. Það er sem sagt gert ráð fyrir 300 millj. kr. fjárheimild til íþróttafélaga til að tryggja áfram faglegt íþróttastarf.

Eins og alþjóð veit hefur mikið mætt á heilbrigðisþjónustu landsins. Hér er gerð tillaga um tæplega 1,6 milljarða aukningu til Landspítalans, eins og ég fór yfir áðan, sem er bæði vegna margvíslegs kostnaðar vegna Covid, en þar er líka um endurmat á rekstri að ræða. Hér er gerð tillaga um 246 millj. kr. vegna tekjutaps af völdum faraldursins hjá Sjúkrahúsinu á Akureyri þar sem ekki tókst að framkvæma þann fjölda aðgerða til að stytta biðlista sem ráðgert var, og af því að greitt hefur verið sérstaklega fyrir þær aðgerðir þurfti að bæta þann rekstur upp. Það hefur sem sagt áhrif á greiðslur úr ríkissjóði en útgjaldaheimild stofnunarinnar verður þar af leiðandi óbreytt. Hjúkrunar- og endurhæfingarþjónusta fær einnig framlag í þessu fjáraukalagafrumvarpi, ríflega 800 milljónir, m.a. Ljósið fær 220 millj. kr. og ríflega 600 milljónir fara í margs konar kostnað hjúkrunar- og dvalarheimila.

Virðulegi forseti. Nefndarálitið er ítarlegt og frumvarpið er mjög skýrt. Ég hef nú gert grein fyrir helstu breytingum fimmta fjárauka ársins og utan þess sem ég hef nefnt hér eru margvíslegar tillögur í frumvarpinu, stórar og smáar, sem skipta alla afar miklu máli í því árferði sem við búum nú við. Ég vona að allir þingmenn standi að baki tillögunum seinna í dag þegar við greiðum um þær atkvæði, því að þær eru allar til að milda félagsleg og efnahagsleg áhrif faraldursins og þess aukna kostnaðar sem af honum hefur hlotist.