151. löggjafarþing — 43. fundur,  18. des. 2020.

búvörulög.

376. mál
[20:23]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra ræðuna og fagna þeim tóni sem kemur frá ráðherranum varðandi það að upplýsingaflæði og vilji til að eiga samskipti og svara gagnabeiðnum og fyrirspurnum verði með besta mögulega hætti. Það er auðvitað bara jákvætt.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra um tvö atriði. Ég ætla að byrja á því sem snýr að 112. gr., þar sem segir í áliti meiri hluta atvinnuveganefndar, með leyfi forseta:

„Nefndinni var jafnframt bent á að beiting 112. gr. samningsins varðar ekki aðeins hagsmuni Íslands. Ákvörðun Íslands um að beita fyrir sig 112. gr. myndi þýða að hún tæki einnig til annarra EFTA-ríkja innan EES, þ.e. Noregs og Liechtensteins. Slíka ákvörðun getur Ísland því ekki tekið einhliða.

Að mati meiri hlutans kemur því beiting 112. gr. EES-samningsins ekki til greina að því er varðar tollasamning Íslands og Evrópusambandsins.“

Það sem mig langar til að spyrja hæstv. utanríkisráðherra í þessu samhengi er um afstöðu hans til 112. gr. Telur hann hana virka komi upp mál sem við teljum okkur þurfa að spyrna við fótum í? Hvernig er afstaða ráðherrans gagnvart 112. gr. samanborið við 102. gr. sem var mikið rædd í kringum þriðja orkupakkann? Nú tökum við það alveg til hliðar hvort þetta tiltekna atriði falli þarna undir en ef atriði sem tryggilega væri innan þess ramma sem 112. greinin tæki á, hver væri afstaða hæstv. ráðherra til beitingar hennar almennt?