151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala Íslandsbanka.

[15:27]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Væntanlega eru þessi vanskilalán hluti af lánabók bankans. Það kann að vera að Bankasýsla ríkisins, og ég fylgist ekki nákvæmlega með daglegri starfsemi hennar, telji að æskilegt sé að selja þetta með einhverjum sérstökum hætti. Það er ekki hluti af greinargerð hæstv. fjármálaráðherra sem fór til nefndarinnar. Þetta eru viðbótarupplýsingar eins og hv. þingmaður hefur hér upplýst og hefur hreinlega ekki komið til umræðu á vettvangi ríkisstjórnar eða ráðherranefndar um efnahagsmál. Ég tel hins vegar fyllstu ástæðu til að taka þetta til skoðunar þar í ljósi orða hv. þingmanns.

Ég vil síðan minna á að þessi sala sem hér verður til umræðu er ekki að fara fram á morgun. Nefndir Alþingis eru að fara skila áliti sínu og eftir það tekur við langt ferli þar sem einmitt mun þurfa að bregðast við ýmsum álitamálum, m.a. þeirri stöðu sem fram kemur eftir ársuppgjör bankans, mati á því hvernig hann stendur á þeim tíma o.s.frv. Ég tel að það sé mikilvægt í allri þessari umræðu (Forseti hringir.) að við tölum um þetta eins og það er. Það er ekki verið að klára þetta mál á morgun eins og mætti skilja á umræðunni heldur eru mörg álitamál eftir. Þetta er eitt þeirra (Forseti hringir.) og ég mun afla mér upplýsinga um það eftir þessa fyrirspurn hv. þingmanns.