151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

forsendur við sölu Íslandsbanka.

[15:34]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Núna er margt í gangi og mál málanna þessa stundina kannski fyrirhuguð sala ríkisstjórnarinnar á hlut í Íslandsbanka af ótilgreindri stærð. Það hefur skiljanlega valdið töluverðum áhyggjum í samfélaginu enda virðist engin eftirspurn eftir þeirri aðgerð nema mögulega hjá þeim sem munu græða mest á henni. Margt er óljóst við þessar fyrirætlanir og margir spyrja sig hvers vegna liggi svona mikið á. Hinn naumi tímarammi sem þinginu er ætlaður til að fara yfir þetta er síðan enn eitt dæmið um heimatilbúna tímapressu. Eðlilegt verklag við svona stóra óafturkræfa aðgerð er að byrja á því að setja sér forsendur, þ.e. hvaða skilyrði þurfi að uppfylla til að það teljist líklegt að aðgerðin heppnist og skilgreina hvað felst í því nákvæmlega að árangur hafi náðst og fara ekki af stað fyrr en að þeim skilyrðum uppfylltum.

Einu forsendurnar sem ríkisstjórnin virðist hafa lagt fram er að þetta sé í stjórnarsáttmálanum og því liggi á að gera þetta fyrir kosningar. Engin skilyrði hafa komið fram um ásættanlegan kostnað og ávinning, efnahagsforsendur, stöðugleikaskilyrði, skilyrði um kaupendur, skilyrði um verð o.s.frv. Ef slík skilyrði hefðu komið fram gæti þingið a.m.k. lagt mat á hvort þau væru góð og hvort þau hefðu verið uppfyllt. Séu engin önnur skilyrði til staðar er það til marks um að allar áhyggjur fólks af enn einu einkavæðingarferlinu séu réttmætar.

Við Píratar erum ekki í grunninn á móti því að þessi hluti Íslandsbanka sé seldur en fyrir okkur er lykilatriði að það sé gert á réttum og faglegum forsendum og í gagnsæju ferli. Það er ekki nóg að kalla ferlið gagnsætt til að það sé það. Það verður raunverulega að birta gögnin. Þetta lítur út fyrir að verða eins ógagnsætt og ófaglegt og hægt er að ímynda sér. Það er ástæða (Forseti hringir.) til að spyrja hæstv. forsætisráðherra: Hvaða forsendur liggja að baki fyrirætlunum um sölu? (Forseti hringir.) Eru einhver skilyrði sett fyrir henni? (Forseti hringir.) Og hvenær hefur ríkisstjórnin hugsað sér að gera skilyrðin og forsendurnar opinberar?