151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

staða stjórnarskrármála.

[11:21]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Í ljósi orða málshefjanda væri nú býsna fróðlegt ef einhver tæki sig til og reiknaði út hvaða tíma það tæki hv. þingmann að borða einn fíl, slík var nú varfærnin. Ég tek undir með hv. þingmanni að efnisleg umræða verður að bíða betri tíma, en ég ætla að lýsa yfir vonbrigðum með að Alþingi skyldi ekki geta efnt loforð sitt við þjóðina um heildstæða stjórnarskrá. Stjórnarskráin er samfélagssáttmáli, æðstu lög landsins og grundvöllur íslenskrar stjórnskipunar. Í henni eru mannréttindi falin og skyldur, jafnt ríkisvalds sem borgaranna. Það er því mjög mikilvægt að stjórnarskráin tilheyri öllum landsmönnum, endurspegli sameiginleg gildi þeirra og njóti almenns trausts.

Trúverðugt ferli við mótun nýrrar stjórnarskrár hófst eftir hrun með þjóðfundum og kosningu stjórnlagaráðs. Ráðið skilaði Alþingi heildstæðu frumvarpi sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd vann áfram og lagði fram fullbúið nefndarfrumvarp árið 2013. Þrátt fyrir að tveir þriðju hlutar kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu vildu leggja þetta frumvarp til grundvallar nýrri stjórnarskrá tókst ekki að afgreiða málið, m.a. vegna málþófs Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Það er rétt að halda þessu ferli áfram og hrinda í framkvæmd vönduðum og lýðræðislegum lokaáfanga stjórnarskrárferlisins sem byrjaði 2009. Markmiðið? Heildstæð stjórnarskrá sem síðan yrði farið með í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Hvað sem öðru líður þá má a.m.k. fullyrða að tilraun hæstv. forsætisráðherra til að ná breiðri sátt um þessi mál á lokuðum fundi formanna hefur mistekist. Við munum vinna málefnalega að málinu, styðja góðar tillögur og breytingar, en við munum leggjast af fullum þunga gegn ákvæðum eins og auðlindaákvæðinu sem myndu festa í sessi og helga í stjórnarskránni óásættanlega úthlutun nýtingarheimilda, sem kemur í veg fyrir að eigandi auðlindarinnar og landsmenn njóti eðlilegs arðs af eign sinni með réttmætri gjaldtöku.