151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

staða stjórnarskrármála.

[11:40]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Ég nefndi það í fyrri ræðu að ég teldi óheppilegt fyrirkomulag við breytingu á stjórnarskrá að tillögurnar væru lagðar fram sem hvert annað þingmannamál í pólitískum ágreiningi. Þegar farið er í almennar lagabreytingar er eðlilegt að menn takist á og ríkisstjórn knýr þá yfirleitt sitt í gegn, jafnvel þótt við það sé talsverð andstaða. En breytingar á stjórnarskrá á ekki að færa í það far því að hún gegnir því hlutverki að sameina og þess vegna breytast stjórnarskrár hægt og leitast er við að gera það í samstöðu. Sú vinna sem fram fór í nefndinni var gagnleg að ýmsu leyti en þar — ég get bara talað fyrir sjálfan mig auðvitað — leitaðist maður við að ná sátt og var fyrir vikið kannski til í að gefa eitthvað eftir, hafa hlutina aðeins öðruvísi en maður helst vildi hafa, til þess að ná sátt. En það horfir öðruvísi við þegar málið er komið inn í þingið eins og hvert annað pólitískt ágreiningsefni.

Ég vona bara að þetta mál verði ekki fórnarlamb einhvers konar hrossakaupa hjá stjórnarflokkunum. Nú erum við nýbúin að sjá þingmenn Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs tala af mikilli sannfæringu og krafti fyrir einkavæðingu banka og ef þau sinnaskipti þess flokks hafa áhrif á afstöðu ríkisstjórnarflokkanna í öðrum málum þá vona ég að það eigi ekki við um þetta mál, að breytingar á stjórnarskrá séu ekki aðeins gerðar að pólitísku ágreiningsefni í þingsalnum heldur geti orðið fórnarlamb pólitískra hrossakaupa. Það má ekki gerast.