151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

staða stjórnarskrármála.

[11:53]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég þakka þeim sem tóku þátt í þessari umræðu. Alltaf kemur eitthvað á óvart í þessu og alltaf kemur eitthvað nýtt fram. Miðað við það sem fram hefur komið í fjölmiðlum get ég svo sem ekki látið líta út fyrir að ég sé mjög undrandi á því hvernig fulltrúar ýmissa flokka hafa talað hér, og þá sérstaklega fulltrúar Samfylkingar og Pírata sem hafa verið með neikvæða nálgun gagnvart þeim tillögum sem hæstv. forsætisráðherra hefur reifað og reyndar gagnvart því vinnulagi að áfangaskipta og taka fyrir afmörkuð málefni.

Það er auðvitað svolítið nýmæli, sem fram kom hjá þingflokksformanni Viðreisnar, að hún styddi breytingar á grundvelli tillagna stjórnlagaráðs. Ég skildi hana svo að þar væri allur pakkinn undir, ekki bara þau tilteknu ákvæði sem Viðreisn hefur fram að þessu lagt helsta áherslu á. Formaður Viðreisnar varð ekki til þess að skýra það hvort þarna væri um að ræða stefnubreytingu þingflokksformannsins eða flokksins í heild vegna þess að hv. formaður Viðreisnar talaði aðeins um eitt ákvæði sem kemur til efnislegrar umræðu síðar. En allt í lagi með það.

Ég vildi bara nefna það í lok þessarar umræðu, sem viðbrögð við nokkrum sjónarmiðum sem hér hafa komið fram, að Alþingi hefur auðvitað getað breytt stjórnarskránni mjög oft á grundvelli núverandi stjórnarskrár. Alþingi hefur sjö eða átta sinnum gert breytingar á stjórnarskrá á lýðveldistímanum og flestar þær breytingar hafa verið gerðar í sátt. Staðhæfingar um að Alþingi sé ófært um að gera breytingar á stjórnarskránni standast ekki. Á lýðveldistímanum hafa verið gerðar breytingar á 46 eða 47 ákvæðum stjórnarskrárinnar, í þessum sjö eða átta áföngum. Það er því engin innstæða fyrir fullyrðingum um vanhæfni eða að Alþingi sé óhæft til að taka þessar ákvarðanir.