151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

vextir og verðtrygging.

441. mál
[17:38]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Bara til að það sé alveg örugglega enginn misskilningur um það, ég veit ekki alveg hvort ég mátti skilja það af ræðu hv. þingmanns, en þannig að ég slái það út af borðinu ef einhverjir eru að hugsa um það, þá gildir frumvarpið bara um ný lán sem tekin verða eftir að það tekur gildi. Það mun ekki hafa áhrif á þegar útgefin lán. En ég skil þessar vangaveltur um hvort það hefði mátt ganga lengra. Mín skoðun er að rétt sé að gera þetta í skrefum og meta, svo dæmi sé tekið, áhrifin af þessu frumvarpi annars vegar og svo hlutdeildarlánafyrirkomulaginu hins vegar, hvort við séum að grípa og ná utan um þá hópa sem vilja komast inn á húsnæðismarkaðinn með þeim úrræðum sem við erum að bjóða. Þá er ég að vísa sérstaklega til opinberra húsnæðisaðgerða og hins vegar þess sem gerist á hinum frjálsa markaði. Þetta er í raun og veru viðfangsefnið. Ég vil ekki þrýsta fólki inn á leigumarkað eða láta ungt fólk þurfa að dvelja lengur en nauðsyn krefur í heimahúsum fyrir það eitt að við viljum draga úr notkun verðtryggðra jafngreiðslulána. Okkar er að skapa öll hin almennu skilyrði til þess að draumar þessa fólks geti ræst. Og nú tel ég að séu góðar aðstæður, lágir vextir, stöðug verðbólga og ágætis verðbólguvæntingar fram á við litið. Markaðurinn er allur að færa sig meira yfir í óverðtryggð lán sem eru í raun og veru skilaboð til okkar hér um að fólk hafi trú á því sem við erum að gera og það treysti því að við höldum áfram þannig utan um málin að það komi ekki í bakið á þeim að hafa tekið óverðtryggð lán. Það er mikilvægt að hafa það í huga þegar við erum að skoða stóra samhengið.