151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

vextir og verðtrygging.

441. mál
[17:43]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sá sem tekur 40 ára verðtryggt jafngreiðslulán er að segja: Ég vil geta keypt mér mitt eigið húsnæði. Ég er tilbúinn til þess að láta höfuðstól lánsins standa óbreyttan yfir fyrri hluta lántökutímans — við gefum okkur hefðbundnar forsendur við töku lánsins — og ég óska í raun eftir því að lánið verði byggt þannig upp að ég fái lán á móti því sem ég get ekki staðið í skilum með þar til ég næ að vinna niður höfuðstól. Það tekur langan tíma í jafngreiðslufyrirkomulaginu vegna þess að í upphafi eru menn fyrst og fremst að greiða vexti. Þetta er í raun og veru yfirlýsing um það að menn sætti sig við þetta en vilji fá kostina á móti. Svo getum við tekist á um það lengi hvort fólk skilji í raun og veru hvers konar fyrirbæri þessi lán eru. En að því gefnu að fólk skilji þetta til hlítar þá er það að segja: Ég vil gera þetta þrátt fyrir þessa eiginleika lánsins og ég bið um að fá lán fyrir því sem ég ræð ekki við að greiða af til að byrja með. En síðan skal ég gera það upp í restina. Það þarf sterk rök til að þrengja að möguleikum fólks sem með opin augun vill gera þetta. Þau liggja kannski fyrst og fremst í hagstjórnartækjunum og mér finnst við hafa mjög ríka skyldu, þegar við segjum að við viljum þrengja að þessum valkosti, til að sýna fram á að það sé önnur leið, að við höfum önnur úrræði, að það sé einhvers konar heildarávinningur fyrir samfélagið. Það hefur verið erfitt að koma fram með þau rök, ekki síst meðan ákveðin óvissa hefur verið í hagkerfinu um verðbólguvæntingar og vextir hafa verið tiltölulega háir. En það er svona opnun núna vegna ytri aðstæðna og við höfum verið að innleiða ný úrræði sem koma líka til móts við, ætla ég að leyfa mér að segja, ókostinn í þessu máli.