151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

félagsleg undirboð í flugstarfsemi.

[13:24]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Ég vil við þetta tækifæri beina fyrirspurn til hæstv. félagsmálaráðherra sem ráðherra vinnumarkaðsmála. Það hafa verið fluttar fréttir undanfarna daga og vikur af kjarasamningum eða ósætti Félags íslenskra atvinnuflugmanna og BlueBird Nordic, eða Bláfugls eins og það er þekkt hér heima. BlueBird Nordic, eins og við þekkjum félagið í daglegu tali, rekur sex fraktflugvélar á íslensku flugrekstrarleyfi. Í upphafi síðasta árs var félagið selt til Avia Solutions Group í Litháen en móðurfélagið er með höfuðstöðvar á Kýpur. Bláfugl hefur nú í miðjum kjaraviðræðum sagt upp öllum flugmönnum sem vinna eftir kjarasamningi og ráðið gerviverktaka, eins og það er stundum kallað, þeirra í stað þó að áhöld séu um og menn ekki á eitt sáttir um hvort þetta hugtak eigi við. Verktakarnir starfa hjá BlueBird Nordic í gegnum starfsmannaleiguna Confair Consultancy sem er ekki og hefur aldrei verið skráð hjá Vinnumálastofnun Íslands líkt og lög gera ráð fyrir.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi kynnt sér þetta mál og eftir atvikum þá skoðað með hvaða hætti þeir eftirlitsaðilar sem heyra undir ráðherra hafa tekið á málinu eða skoðað það. Það hafa heyrst lýsingar og á vísir.is birtist í gær frásögn Steindórs Inga Hall sem er formaður samninganefndar FÍA við Bláfugl. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Við sjáum annað dæmi um afarkosti Bláfugls þegar gerviverktakarnir þurfa að taka sína hvíld á Íslandi. Þeim er þá gert að halda sig innan flugvallarsvæðisins … og taka sína hvíld í einhverri aðstöðu sem búin hefur verið til innan flugvallarins … Þar hvíla þeir sig í allt að 36 klst. áður en þeir fara í næsta flug og á meðan á hvíldinni stendur er þeim ekki hleypt úr húsi. Þetta kallast ekkert annað en stofufangelsi …“

Svo mörg voru þau orð hjá formanni samninganefndar FÍA. Það horfir auðvitað við með mjög sérstökum hætti að mál séu svona vaxin. Mig langar að heyra (Forseti hringir.) hvernig þetta horfir við hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) og hvernig undirstofnanir ráðuneytisins hafa tekið á málum hingað til.