151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

Covid-19 og horfurnar fram undan, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. -- Ein umræða.

[13:49]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa reglulegu skýrslugjöf sem hefur verið í gegnum tíðina ansi upplýsandi og mikilvægt að við tökum umræðu um hér. Nú er tæplega eitt ár síðan fyrsta smit greindist hér á landi. Og það eru tæpir tveir mánuðir síðan fyrst var bólusett fyrir þessari veiru. Ég verð að segja að bólusetning gengur afskaplega hægt þó að ég ætli ekki að bera upp spurningu varðandi það. Ég vil frekar verja tíma mínum í að spyrja um fyrirsjáanleika aðgerða.

Nú er hæstv. ráðherra búinn að greina okkur frá því hvernig bóluefni muni berast hingað og væntingum um það á næstu mánuðum og hefur nefnt ýmsar tölur í því sambandi. Þess vegna langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra um fyrirsjáanleikann: Er ríkisstjórnin með einhverjar fyrirætlanir eða hefur hún gefið út um það á hvaða stigi eigi að aflétta tilteknum hömlum þegar búið er að bólusetja ákveðinn hluta þjóðarinnar eða alla þá sem eru yfir tilteknum aldri, kannski yfir sextugt eða sjötugt? Eru einhverjar aðgerðir og tilslakanir sem fólk og atvinnulífið í landinu getur búist við og séð fyrir fram, að þá verði slakað á tilteknum hömlum í samfélaginu, þ.e. að þegar búið verði að bólusetja alla yfir sextugt, sem er þá á einhverjum ákveðnum tímapunkti, ef væntingar raungerast, verði slakað á, þegar búið er að bólusetja þá sem eru í mesta áhættuhópnum og þola veiruna verst?