151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

Covid-19 og horfurnar fram undan, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. -- Ein umræða.

[13:57]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Óþolinmæði kom fram í máli hæstv. heilbrigðisráðherra í svörum við einn hv. þingmann. Það er kannski ekki skrýtið að menn greini óþolinmæði hjá bæði þingmönnum og almenningi í þessum málum vegna þess að hver vika skiptir miklu máli í þessu ástandi. Menn kalla eftir eðlilegu lífi á Íslandi. Menn lofuðu því 19. ágúst þegar gripið var til hörðustu aðgerða á landamærum og gagnvart atvinnulífi sem um getur og enn hefur ekkert bólað á þessu eðlilega lífi. Þannig að það er kannski ekki skrýtið að óþolinmæði komi upp í hugann.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra í kjölfar ummæla um nýjustu áætlanir um hvenær búið verði að bólusetja helming þjóðarinnar, sem mér skilst að eigi að vera í júlí. Það eru nýjustu tölur, alltaf er þetta að dragast. Í ljósi þess að t.d. Danir áætla að búið verði að bjóða allri dönsku þjóðinni upp á bólusetningu í júní, og fréttir bárust af því í gær eða fyrradag að Danir hefðu aflað sér 900.000 nýrra skammta, langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki sé enn verið að vinna að því með einhverjum hætti að auka keypt magn hingað til landsins sérstaklega, fram hjá einhverjum samningum við Evrópusambandið. Hvort ekki sé skynsamlegt að halda til haga viðræðum við aðra framleiðendur, a.m.k. þá þrjá sem við höfum þegar tryggt okkur bóluefni hjá. Það er heldur ekki hægt að láta hjá líða að nefna nýjustu aðgerðir sem kynntar eru hér og eiga að taka gildi á föstudaginn, um þriðju skimunina á fólki sem kemur til landsins. Mig langar að spyrja í því ljósi: Hvert er markmið stjórnvalda í dag með þriðju skimuninni? Er markmiðið ekki lengur að fletja kúrfuna? Er markmiðið núna að loka Íslendinga inni í svokölluðu veirufrjálsu landi?