151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

Covid-19 og horfurnar fram undan, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. -- Ein umræða.

[14:06]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Eins og fram kemur í fyrirspurn hv. þingmanns þá lágu þær upplýsingar sem komu fram í inngangsræðu minni flestallar fyrir í fréttatilkynningu fyrr í morgun og ég vonast til þess að hv. þingmenn hafi haft tök á því að fylgjast með því sem fram fór í umræðunni. Sem betur fer hefur það verið þannig að í þessari umræðu hér í þinginu erum við ekki að kynna til sögunnar nýjar upplýsingar heldur erum við að halda saman þeirri umræðu sem verið hefur og síðan sit ég hér fyrir svörum.

Hv. þingmaður tekur undir mikilvægi þess að spila þetta saman, að vera með strangari reglur á landamærum og síðan að geta slakað betur á innan lands. En þingmaðurinn hefur efasemdir um að hægt sé að gera kröfur um neikvætt PCR-próf fyrir alla. Ég deili ekki þessum efasemdum og mitt ráðuneyti gerir það ekki heldur, enda höfum við á grundvelli tillagna sóttvarnalæknis farið yfir það hvernig þær tillögur samræmast lögum og reglum og þar með talið stjórnarskrá, þó að það liggi auðvitað algerlega fyrir að íslenskum ríkisborgurum verður aldrei vísað frá landinu. Það myndi aldrei ganga.