151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

Covid-19 og horfurnar fram undan, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. -- Ein umræða.

[14:10]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Það sem hv. þingmaður vísar til í sinni seinni spurningu lýtur í raun að framkvæmd þeirra ráðstafana sem verið hafa í gangi hingað til og varðar ekki sérstaklega þá reglugerðarbreytingu sem gengur í gildi á föstudaginn kemur að því er varðar eftirlit með þeim sem eru í sóttkví eða einangrun, að fylgjast betur með því eða tryggja með einhverju móti að farþegar verði ekki sóttir af ættingjum eða vinum á landamærastöð, að bæta forskráninguna o.s.frv., þannig að það eru margir þættir þarna sem lúta að framkvæmdinni.

En ég vil staldra við það sem hv. þingmaður spyr um sérstaklega, því að það skiptir mjög miklu máli að því sé svarað, þ.e. framkvæmdina varðandi Íslendinga sem ekki koma með neikvætt PCR-próf. Það verður í skoðun þangað til reglugerðin hefur tekið gildi. Ég get ekki svarað því nákvæmlega núna hvernig það verður gert en það er sektarheimild í lögunum sem er hugsanlegt að yrði beitt. En það liggur ekki endanlega fyrir, svo því sé svarað hér algjörlega hreint út.

Í þessari breytingu freistum við þess að reyna að loka betur, eins og hv. þingmaður nefndi. En þingmaðurinn fór líka yfir þetta með merkt sæti og íþróttakappleiki. Ég held að það skipti mjög miklu máli í öllum þessum ráðstöfunum að sem mest samræmi sé milli starfsemi, þ.e. að ein starfsemi lúti einum reglum og önnur starfsemi öðrum; að reglurnar snúist miklu frekar um fyrirkomulag, þ.e. fjölda, staðsetningu fólks, hvort það er í merktum sætum o.s.frv. Við munum freista þess að gera það eins vel og við getum í næsta skrefi. Ég veit að íþróttahreyfingin er spennt og ég er það líka, þannig að ég held að við eigum að skoða þetta. En þetta hefur gefist vel varðandi sviðslistirnar og ég held að við eigum að halda áfram á þeirri braut.