151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

Covid-19 og horfurnar fram undan, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. -- Ein umræða.

[14:17]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Eins og hæstv ráðherra kom inn á áðan er þetta alltaf ákveðinni óvissu undirorpið og maður skilur það, sérstaklega þegar verið er að framleiða efni sem kannski hafa ekki verið framleidd áður og kunna þess vegna að vera flóknari í framleiðslu en margt annað sem þessi fyrirtæki hafa tekið sér fyrir hendur. Ég man ekki hvort ég hef áður velt því upp í samtölum mínum við hæstv. ráðherra en ef ég tel rétt á síðunni bóluefni.is þá eru taldir upp sex bóluefnaframleiðendur; ráðuneytið hefur þegar gert samninga við fjóra eða fimm af þeim, en einn eða tveir aðrir eru nefndir. Nú eru fleiri bóluefnaframleiðendur og það bóluefni sem jákvæðastar fréttir hafa borist af, alla vega úr ritrýndum tímaritum eða ritrýndum gögnum, virðist vera bóluefnið Sputnik sem var þróað af Gamlaeya-stofnuninni í Moskvu. Þær rannsóknir sem hafa komið fram um þetta efni hafa verið áhugaverðar, ég held að óhætt sé að segja það, og birst, eins og einhver myndi segja, í mjög viðurkenndum tímaritum. Mig langar að spyrja ráðherra: Eru einhver samtöl í gangi við fleiri bóluefnaframleiðendur, ég er ekki endilega bara að tala um Sputnik, en koma fram á síðunni? Ég er ekki að biðja hæstv. ráðherra að uppljóstra um einhver leyndarmál en eru slík samtöl í gangi og hefur ráðuneytið áhuga á slíku?