151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[17:37]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar að óskynsamlegt sé að koma með frumvarp sem við vitum ekki hvað kemur til með að kosta. Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðherra að hann ætlar að fjölga um tvo starfsmenn hjá Fjölmenningarsetri. Ég sagði hér áðan að þetta væri ágætisstofnun og ég er ekkert á móti henni. Hins vegar er alveg ljóst að í þessu frumvarpi felast skilaboð sem koma til með að kosta verulegar upphæðir þegar upp er staðið. Það finnst mér bara óskynsamlegt. Ég set ekkert út á það að einstaklingar og flóttafólk sé að læra íslensku. Það er náttúrlega bara útúrsnúningur hjá hæstv. ráðherra. Málflutningur minn í þessu máli, hæstv. ráðherra, hefur allan tímann verið að kostnaðurinn liggur ekki fyrir. Hann verður að liggja fyrir. Ég árétta að ég er bara þeirrar skoðunar að ég vil nýta þessa peninga í miklu ríkara mæli en gert er fyrir flóttamenn erlendis, í flóttamannabúðum þar. Mikið af þessum peningum er að fara í alls konar hluti sem gagnast flóttamönnum ekki neitt og hælisleitendum ekki neitt, í alls konar lagaþrætur og ýmsan kostnað. Svo kemur á daginn að viðkomandi var með tilhæfulausa umsókn. Ég vil sjá þessa peninga nýtast þeim sem þurfa á því að halda. Um það snýst þetta mál frá mínum bæjardyrum séð.

Þegar menn koma með frumvarp sem greinilega mun þýða fjárútlát fyrir ríkissjóð verða menn að gera grein fyrir því. Það er bara þannig. Hæstv. ráðherra minntist á Skandinavíu, Noreg og Danmörku, að þar sé verið að veita svona þjónustu. Það er gott og vel. En hvað erum við að gera á móti til að draga þá úr þeim mikla fjölda sem kemur hingað? Við erum ekki að gera nokkurn skapaðan hlut í því. Þetta mun þýða að fleiri umsóknir koma. Það er alveg ljóst, hæstv. ráðherra. Það kemur kannski ekki frá ráðuneyti hæstv. ráðherra en þetta er allt úr sama ríkiskassanum. Ríkissjóður þarf að standa straum af þessu öllu og við þurfum bara að horfa í þann kostnað og hann þarf að liggja fyrir.