151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[17:40]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra. Í fyrsta lagi er ekki hægt að bera saman kvótaflóttamenn og hælisleitendur. Það er tvennt ólíkt, hæstv. ráðherra, og það er rétt að það komi fram. En tökum sveitarfélögin sem dæmi af því að hæstv. ráðherra nefndi þau sérstaklega, að verið sé að semja við þau, þau séu að veita þessa þjónustu o.s.frv. Hvernig gengur hæstv. ráðherra að semja við sveitarfélögin? (Félmrh.: Mjög vel.) Það gengur bara mjög illa. Gengur það vel í Reykjanesbæ, hæstv. ráðherra? (Félmrh.: Þetta bara gengur mjög vel.) Þú hefur ekki hugmynd um hvað þú ert að tala. Reykjanesbær er í þvílíkum vanda við að semja við Útlendingastofnun um aðstoð við hælisleitendur. (Gripið fram í.) Þetta er náttúrlega bara útúrsnúningur, hæstv. ráðherra. Það er bara þannig að sveitarfélög mörg hver vilja ekki einu sinni koma að þessum samningum. Það eru örfá. Áttaðu þig á því að félagsmálakerfið í Reykjanesbæ hefur meira að segja ályktað um þessi mál þess efnis að önnur sveitarfélög verði að axla ábyrgðina (Forseti hringir.) með Reykjanesbæ. En þau gera það ekki. Þau gera það ekki. (Forseti hringir.) Útlendingastofnun er farin að semja beint við eigendur húsnæðis á Ásbrú fram hjá Reykjanesbæ vegna þess að þeir ná engu samkomulagi við sveitarfélagið þar. Það er því alrangt hjá hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) að hann sé að semja við sveitarfélögin og allt gangi snurðulaust. Það er bara kolrangt. (Félmrh.: Nei.)