151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum.

456. mál
[20:06]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það má eiginlega segja að hér sé á ferðinni gamall kunningi, ef ekki hreinlega gamall vinur, nema vinir eru oftast aufúsugestir en ég get ekki alveg sagt að það eigi við hér, frú forseti. Ráðherra nefndi að sátt væri um málið en ég vil þá snúa því svolítið við: Er ráðherrann sáttur við hvað hefur gengið treglega að klára þetta, hvað það hefur gengið ótrúlega seint? Í raun er búið að reyna, svona ef maður er alveg með opin augun, að leysa þessa hnúta í ein fimm, sex ár þegar allt er talið. Það er náttúrlega ekki nógu gott og ég veit ekki alveg hvaðan ráðherrann fær þá bjartsýni að það náist að leysa þetta fyrir haustið en vonandi er það rétt hjá hæstv. ráðherra.

Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra hvort ráðuneytið sé með upplýsingar um hversu margir starfsmenn eru þarna undir og gefa í raun eftir hluta af réttindum sínum á meðan þannig stendur á að ekki sé gengið frá þessu. Persónulega finnst mér þetta vera orðið hálfpínlegt. Mig langar að inna ráðherrann eftir þessu tvennu, þ.e. hvort hann er sáttur við þann seinagang sem hefur verið í þessu og svo hins vegar hvort ráðherrann hafi upplýsingar um hvað þetta kynnu að vera margir.