151. löggjafarþing — 57. fundur,  18. feb. 2021.

staða drengja í skólakerfinu.

[13:25]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Að aumingjavæða sjálfan sig. Rannsóknir sýna að drengir eru miklu duglegri í að aumingjavæða sjálfa sig en stúlkur í skólakerfinu. Þetta kom fram í þættinum Silfrinu á RÚV þann 7. febrúar síðastliðinn. Þessi ummæli frá konu um drengi tel ég varhugaverð og ekki til þess fallin að hjálpa drengjum sem standa halloka í skólakerfinu okkar. Hver hefðu viðbrögðin verið í samfélagi okkar ef miðaldra karlmaður hefði sagt þetta um stúlkur? Aðgát skal höfð í málefnum barna og við verðum að tala varlega og af ábyrgð um stöðu barna í skólakerfinu og ekki að vitna í eða vera með kannanir sem lítilsvirða börn. Börn eru ekki að aumingjavæða sig sjálf heldur er eitthvað að hjá þeim sem semja og gera kannanir á þennan hátt.

Góð umfjöllun um stöðu barna í skólakerfinu og vandamál drengja í skólakerfinu er í viðtali við Þorgrím Þráinsson í helgarblaði Morgunblaðsins um síðustu helgi. Í viðtalinu kemur fram að starfshópur hafi verið skipaður um námsárangur drengja og hann hafi skilað tíu tillögum til úrbóta. Það eina sem gerðist var að sérstakur starfshópur um líðan stúlkna var skipaður. Þar kemur einnig fram í viðtalinu að nemendur þurfa að skilja 98% orða í texta til að ná samhengi og skilja efnið. Ef 34% drengja geta ekki lesið sér til gagns þá sé það vegna þess að orðaforðinn er dapur. Í greininni bendir Þorgrímur á lausnir og skýrslur sem hann kom að og hafa endað ofan í skúffu og ekkert hefur verið gert með þá góðu vinnu sem þar hefur unnið. Þá bendir hann á að nemendur verði fráhverfir íslensku ef þeir þurfi strax að læra flókna setningafræði. Hann sem rithöfundur fjölda bóka gæti ekki sagt hvað í texta sé miðmynd, germynd, þolmynd, frumlag, andlag eða umsögn og það hafi aldrei háð honum.

Á næstu níu árum á að koma þessu í lag, sagði hæstv. menntamálaráðherra í Kastljósi í gærkvöldi, og hjálpa drengjum á þessu ári. En á að setja fjármagn í þetta? (Forseti hringir.) Á að gera þetta núna? Núna á þessu ári getur menntamálaráðherra gert eitthvað í þessu máli (Forseti hringir.) en spurningin er: Hvað er verið að gera núna og verið er að setja fjármagn í þetta?