151. löggjafarþing — 59. fundur,  24. feb. 2021.

fjármálafyrirtæki.

7. mál
[14:40]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanni ræðuna. Ég kem fyrst og fremst hingað upp til að hafna þeirri fullyrðingu að hér sé um sýndarmennsku að ræða. Það er hægt að þola ýmislegt en það er ekki hægt að þola hér síendurtekið tal um einhverja sýndarmennsku. Þetta er nefnilega mjög vel undirbyggt mál. Það er hér til eitt stykki hvítbók um fjármálakerfið. Það er mjög góð skýrsla starfshóps fjármála- og efnahagsráðherra sem rekur það mjög vel hvaða leiðir þjóðir heims hafa farið. Þær þjóðir, mun stærri og með mun stærri kerfi, hafa farið í fullan aðskilnað. Hvað eru þær þjóðir að gera í dag? Þetta er flókið í framkvæmd og þær eru að fara til baka. (Gripið fram í: Það er rangt.) — Jú, það er til skýrsla hjá Evrópusambandinu sem leggur einmitt til þessa skynsamlegu og varfærnu leið. Ég bendi ykkur bara á að lesa þá skýrslu, skýrslu starfshópsins.

Ég er mjög hugsi yfir fullyrðingum af þessu tagi um þetta mál. Það er verið, og það verður að halda því til haga, að draga hér varnarlínu á milli. Það gerist auðvitað þannig að ef á reynir þá kemur aukinn þrýstingur á bankana að bregðast við og hækka eiginfjárhlutfall. Það felst í þessu. Talandi um að varnarlínur bresti, þá bregðast menn við því og þétta vörnina.