151. löggjafarþing — 59. fundur,  24. feb. 2021.

skipun starfshóps um rétt til að annast veikt eða slasað barn.

191. mál
[14:58]
Horfa

Flm. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um skipun starfshóps um rétt til að annast veikt eða slasað barn. Meðflutningsmenn mínir eru þingmenn Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Ari Trausti Guðmundsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Lilja Rafney Magnúsdóttir og Steinunn Þóra Árnadóttir.

Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseti:

„Alþingi ályktar að fela félags- og barnamálaráðherra að skipa starfshóp sem skoði hvort skilgreina eigi rétt foreldra eða forráðamanna á vinnumarkaði til að annast veikt eða slasað barn með tilliti til fjölda barna. Í starfshópnum eigi sæti fulltrúar Alþýðusambands Íslands, BSRB, BHM, Samtaka atvinnulífsins, Samtaka íslenskra sveitarfélaga, umboðsmanns barna, fjármála- og efnahagsráðuneytis og félagsmálaráðuneytis. Hópurinn skili skýrslu til ráðherra eigi síðar en 31. maí 2021.“

Markmið tillögunnar er að fela ráðherra að koma á fót starfshópi til að kanna hvort skilgreina eigi á vinnumarkaði rétt foreldra eða þeirra sem fara með forsjá barns til að annast veikt með tilliti til fjölda barna. Samhliða tillögu þessari er flutt frumvarp þar sem lagt er til að kveðið verði sérstaklega á um það í barnalögum að í forsjárskyldu felist að veikt eða slasað barn eigi rétt á umönnun foreldra sinna. Það er, frú forseti, 30. mál, sem ég hef einnig flutt hér á þingi, þ.e. frumvarp til laga um breytingu á barnalögum. Ég ætla að lesa tillögugreinina eins og hún hljóðar þar, þetta er breyting á 2. mgr. 28. gr. laganna, með leyfi forseta:

„Veikt eða slasað barn skal eiga rétt á umönnun foreldra.“

Síðan er útskýrt í greinargerðinni þar hvað sé átt við með foreldrum.

Þetta kemur til af því, eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu, að réttindi og skyldur á vinnumarkaði eru eðli máls samkvæmt aðallega skilgreind í kjarasamningum og okkur finnst öllum eðlilegt að aðilar semji um slíkt sín á milli. En um er að ræða tvenns konar réttindi, annars vegar rétt veiks eða slasaðs barns til umönnunar foreldris eða forráðamanns og hins vegar rétt starfsmanns til að annast veikt eða slasað barn. Þess vegna þykir rétt að fara þá leið að skipa starfshóp um þessi atriði. Þá er og áréttað mikilvægi þess að samræmi sé á milli þessara réttinda.

Samkvæmt tillögunni er ráðherra falið að skipa starfshóp. Í hópnum eigi sæti þeir aðilar sem upp hafa verið taldir og starfshópurinn skal kanna hvort réttur veiks eða slasaðs barns til umönnunar foreldra skuli miðast við hvert barn fyrir sig í stað þess að rétturinn miðist við það að foreldri eigi rétt á tilteknum dögum á tólf mánaða tímabili til umönnunar veikra barna.

Í dæmaskyni má nefna að barn sem til að mynda á tvö foreldri og er einbirni getur í sumum tilfellum átt rétt á allt að 28 daga umönnun foreldra sinna ef það veikist eða lendir í slysi. Barn einstæðs foreldris, þar sem hins foreldrisins nýtur ekki við, sem á tvö systkini gæti í sömu aðstæðum átt rétt á tveimur til þremur dögum. Þetta skiptir máli vegna þess að við höfum fullgilt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þar sem tekið er sérstaklega á því að við eigum að horfa á svona mál út frá réttindum barnsins.

Aðilar vinnumarkaðarins og opinberir aðilar hafa þegar skilgreint í kjarasamningum réttindi foreldra hvað þetta varðar og þannig gengið á undan með góðu fordæmi. Útfærslan á réttindum foreldra eða forsjáraðila verður þannig áfram í höndum aðila vinnumarkaðarins. Í kjarasamningum eða með reglum væri rétt að útfæra hvernig koma eigi til móts við sjónarmið um að réttur foreldra eða þeirra sem fara með forsjá miðist við hvert barn fyrir sig og tryggi þannig rétt barnsins til umönnunar.

Í greinargerð með frumvarpinu sem ég flutti hér í haust voru rakin þau sjónarmið sem ég hef verið að rifja upp, m.a. tengingin við barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Í þeim sáttmála er réttur barns til samvista við foreldra og umönnunaraðila jafnvel talinn einn af hornsteinum sáttmálans. Þetta skiptir töluverðu máli. Með framlagningu umræddra þingmála, þ.e. þessara tveggja, er sú stefna mörkuð eða er leitast við að fara í þá stefnumörkun að rétturinn feli ekki aðeins í sér rétt foreldra á launuðu leyfi úr vinnu til að annast veikt barn heldur einnig rétt barnsins til að fá þá umönnun. Því sé eðlilegt að stefna að því að rétturinn miðist við hvert barn fyrir sig í stað þess að miða við tiltekinn rétt foreldris á 12 mánaða tímabili eins og nú er. Réttindi barnsins megi þannig ekki eingöngu vera háð fjölda systkina eða samsetningu fjölskyldu. Ég vísa síðan, frú forseti, í málið eins og það er lagt fram í dag, þ.e. mál nr. 30.

Auðvitað koma upp álitamál við samningu og skoðun á þessu atriði og þau geta verið mörg og í fljótu bragði gætu sum þeirra þótt íþyngjandi fyrir vinnuveitendur, jafnvel svo að vinnuveitendur myndu með einhverjum hætti freistast til að ráða síður fólk sem á mörg börn vegna þess að það gæti þýtt enn frekari réttindi og „hættu“ á að starfsmaðurinn verði mikið fjarverandi. Þetta kann að vera rétt en við höfum áður leyst slík mál, frú forseti, í vinnulöggjöfinni, til að mynda í fæðingarorlofslöggjöfinni þar sem það er hreinlega ákveðið að tiltekinn hluti af réttindum sé fjármagnaður úr sameiginlegum sjóðum, með tryggingagjaldi eins og gert er með fæðingarorlofið. Það skiptir svolitlu máli að til allra þessara þátta sé horft til þess einmitt að við lendum ekki í klemmu með það að við gætum verið að rýra möguleika tiltekinna hópa á vinnumarkaði til að fá störf í ljósi þess hversu mörg börn fólk kann að eiga. Þetta eru allt atriði sem er mjög mikilvægt að svona starfshópur fari yfir og auðvitað eru álitamálin fjölmörg önnur.

Ég tel að tengingin við barnasáttmálann sé lykilatriði í þessu, þ.e. að hafa í huga að við verðum sem samfélag að horfa til þess að þarna er réttur barnanna kannski það mikilvægasta. Ég treysti hins vegar aðilum vinnumarkaðarins ágætlega til að höndla um það, verkalýðshreyfingunni, Samtökum atvinnulífsins og Samtökum íslenskra sveitarfélaga, til þess að finna leiðir til að ná þessum markmiðum. Þess vegna er svo mikilvægt að þeir séu með í starfshópi sem snýr að þessu.

Ég geri ráð fyrir að málið fari til velferðarnefndar, frú forseti, ég held að það muni vera rétt, og ég vona að þetta mál ásamt hinu fái a.m.k. umfjöllun ef ekki framgang þannig að við getum farið að taka á réttindamálum barna í samhengi við réttindi foreldra þeirra og forráðamanna á íslenskum vinnumarkaði.