151. löggjafarþing — 61. fundur,  2. mars 2021.

Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.

561. mál
[15:08]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum um Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, sem er hið besta mál. Það sem sló mig mest er að í frumvarpinu segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Endanlegt mat á áhrifum frumvarpsins á starfsemi stofnunarinnar gerir ekki ráð fyrir útgjaldaauka ríkissjóðs. Það er ekki heldur gert ráð fyrir breytingum á ríkistekjum eða eignastöðu ríkissjóðs við lögfestingu frumvarpsins.“

Fyrst við erum að ræða á annað borð um Greiningar- og ráðgjafarstöð og það er verið að breyta nafninu á henni, þá hefði ég búist við og spyr hæstv. ráðherra: Hvers vegna í ósköpunum er þá ekki líka verið að taka á biðlistunum? Hvers vegna í ósköpunum er það ekki gert? Vegna þess að síðustu tölur sem við höfum eru að þar séu a.m.k. 1.200 á biðlista. Þar af eru um 584 börn á biðlista hjá Þroska- og hegðunarstöð og 107 börn bíða eftir greiningu og meðferð á barna- og unglingageðdeild Landspítala, BUGL.

Þetta er ekki ásættanlegt og ég bara get ekki skilið hver framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar fyrir börn er ef ekki á að taka á þessu. Það á að fara að byrja á einhverju kannski í janúar 2022. Hversu mörg börn sitja þá eftir og jafnvel búið að eyðileggja skólagöngu þeirra, eyðileggja framtíð þeirra? Því að við vitum að geðraskanir eru ein helsta orsök örorku.