151. löggjafarþing — 61. fundur,  2. mars 2021.

greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.

561. mál
[15:21]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Já, verið er að laga þá þriðja stigs þjónustu sem m.a. er veitt hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, en samkvæmt þessu frumvarpi er ekkert fjármagn sett inn í þetta. Það er ekkert fjármagn þar er varðar Greiningar- og ráðgjafarstöð. En verður ekki líka að meta það þegar búið er að aðlaga kerfið, laga stofnanirnar og laga kerfið og kostnaðargreina, hvaða flöskuháls opnast við það og hvað það mun kosta ríkið að geta þjónustað alla þá sem núna húka, ekki í nokkrar vikur og ekki í nokkra mánuði, heldur eins og þessi 350 börn sem biðu greiningar í allt að tvö ár, eins og kom fram á síðasta ári við fyrirspurn hv. þingmanns? Ef hægt er að losa um stíflu þá hlýtur það að kosta eitthvað. Ég myndi halda að það ætti að koma fram í svona plaggi. Ef ætlunin er að losa um þá stíflu sem er í kerfinu þá þarf það að koma fram í plagginu hvað slíkt kostar.

Svo vil ég spyrja hæstv. ráðherra einnig út í það, af því að líka hefur verið talað um ofgreiningar í íslensku kerfi, hvort að hæstv. ráðherra hafi skoðað það sem gert hefur verið í Reykjavíkurborg af því að þar var tekin sú ákvörðun í skólakerfinu að veita þjónustu óháð greiningu. Það er ekki lengur þörf á því að bíða greiningar þannig að þjónustan sé veitt heldur er einmitt farið í snemmtæka íhlutun þar til að aðstoða börn sem sýna að þau eiga við einhvern vanda að stríða án þess að barnið þurfi að vera búið að ganga í gegnum þessa tveggja ára bið eftir greiningu. Er hæstv. ráðherra mögulega tilbúinn að skoða það með okkur að við getum veitt þjónustuna án þess að barnið sé með þetta vottorð um greiningu við höndina?