151. löggjafarþing — 61. fundur,  2. mars 2021.

Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.

561. mál
[15:26]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða frumvarp hæstv. félags- og barnamálaráðherra um Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Aðalmálið virðist vera að í stað þess að kalla hana Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins verði hún kölluð Greiningar- og ráðgjafarstöð.

Það er auðvitað alveg frábært, sem hefur komið fram hérna, að búið sé að tryggja í framtíðinni allt að 1,7 milljarða til að taka á málefnum barna á biðlista eftir janúar 2022. Sagt er að það þurfi fjárlög. En það virðist ekki vera vandamál að hafa fjárlög ef það varðar það að setja peninga í ýmsa hluti, eins og Covid-málin, t.d. það að styrkja fyrirtæki, jafnvel fyrirtæki sem hafa borgað sér milljarða í arð. Það virðist vera til nóg af peningum fyrir þau fyrirtæki. En málefni barna? Jú, það verða til peningar 2022, 1,7 milljarðar. En hvað á að gera í dag? Við getum ekki beðið lengur. Eins og hefur komið fram biðu 1.193 börn síðasta haust eftir greiningu og 584 börn voru á biðlista hjá Þroska- og hegðunarstöð og 107 börn bíða eftir greiningu og meðferð á barna- og unglingageðdeild Landspítalans. Þetta eru allt of mörg börn á biðlista og það er bara hluti.

Hér var spurning um greiningu. Í þessu kerfi er búið að búa til biðlista til að komast á einn stað til að fá greiningu til að komast á annan biðlista til þess að komast áfram og fá þjónustu. Það er skelfilegt og á ekki að eiga sér stað. Það er frábært að ríkisstjórnin sé að vakna og að þetta eigi að koma til árið 2022, en það er eftir næstu kosningar. Ríkisstjórnin hefur haft fjögur ár til að gera eitthvað í þessum málum, fjögur ár til að finna fjármagnið til að taka á biðlistunum. En því miður, það er ekki í boði.

Nú er verið að þrengja að talmeinafræðingum með reglugerðarbreytingum sem gera það að verkum að fjölgun talmeinafræðinga stöðvast í tvö ár. Þar er biðlisti frá 17 upp í 36 mánuði. Eins og ég sagði áðan í andsvari, hvernig í ósköpunum er hægt að segja við barn sem er sjö ára að það eigi að bíða til tíu ára aldurs? Við getum ekki leyft okkur það. Bara á höfuðborgarsvæðinu eru 350–900 börn á biðlista eftir talþjálfun, eins og kemur fram, með leyfi forseta, í bréfi frá talmeinafræðingum:

„52 talmeinafræðingar starfa samkvæmt samningum SÍ en mjög fáir eru í fullu starfshlutfalli. Biðlisti eftir meðferð, talþjálfun, er 17–36 mánuðir. Lengst er biðin á landsbyggðinni. Fjöldi stofa á höfuðborgarsvæðinu er sex talsins og spannar fjöldi barna á biðlista eftir talþjálfun frá 350 upp í 900. Samanlagður fjöldi er því töluverður.“

Við erum að tala um börn með fjölþætt vandamál og það segir sig sjálft að börn eiga aldrei að vera á biðlista. Það eru því miður ótrúlega mörg göt í kerfinu. Við eigum að gera kröfu um það gagnvart biðlistunum að ríkisstjórnin hysji upp um sig buxurnar, bretti upp ermarnar og finni peninga í þetta núna, vegna þess að það eru börn núna sem þurfa þjónustuna, börn sem bíða eftir að tekin verði ákvörðun um hvort þau geti komist eðlilega í gegnum skólakerfið eða hvort þau sitji eftir vegna þess að ekkert hafi verið gert eða, við skulum segja, lítið hafi verið gert til að ráðast á biðlistana. Við getum ekki haldið áfram að fela okkur á bak við Covid-19, sem hefur stóraukið vandann að vísu, en til voru peningar til að takast á við allt í sambandi við Covid, nema hvað? Biðlista barna og biðlista í heilbrigðiskerfinu. Í dag virðast ekki vera til peningar en þeir virðast vera til í framtíðinni. Það er ekki ásættanlegt vegna þess að það er of seint fyrir stóran hóp barna og eiginlega með ólíkindum hvernig við erum að fá — nú skelfur jörð, ekki furða miðað við þann málaflokk sem við erum að tala um að það nötri eitthvað aðeins, að móðir jörð láti í sér heyra líka, henni hefur örugglega einnig blöskrað þær aðstæður sem við erum í. En við eigum að sjá til þess, eins og ég hef hingað til sagt, að engin börn séu á biðlista, hvorki eftir greiningu né öðru vegna þess að það er gífurlegt álag fyrir fjölskyldur þeirra að eiga við það.

Annað í þessu sýnir líka í hvernig stöðu þau eru og hvernig við gleymum stórum hópi barna, börnum með alvarlega og fjölþætta fötlun. Við gleymum oft hvernig við ætlum að sjá til þess að þegar þessar aðstæður skapast hjá fjölskyldunni að hún geti annast börnin í þeirri íbúð sem þau búa í. Fjölskyldan býr kannski í gömlu húsi þar sem eru stigar og aðgengi fyrir hjólastóla ekkert. Foreldrar geta lent í því að barn, eða fleiri en eitt í sumum tilfellum, getur ekki fengið þjónustu í viðkomandi íbúð. Hvað skeður þá? Geta þau farið og sótt einhvers staðar um hjálp, geta þau beðið um aðstoð? Nei, það er ekkert hugsað út fyrir kassann. Þarna er virkilega pottur brotinn og þarna þarf að taka til höndum. Það þarf að fara að sjá til þess að aðstoða þetta fólk. Fólk sem lendir í svona ömurlegum aðstæðum og er að berjast, dag eftir dag, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð, ár eftir ár, til að reyna að fá þjónustu fyrir barnið sitt, sjálfsagða og eðlilega þjónustu sem á að veita strax, fær ekki einu sinni þá þjónustu, fær ekki einu sinni þjónustu til þess að geta hugsað um börnin sín á mannsæmandi hátt á eigin heimili, eða aðstoð til að geta flutt í aðstöðu þar sem það getur virkilega séð um að börnin geti verið í eins eðlilegu umhverfi og hægt er, miðað við t.d. hjólastóla og annað sem þarf til að sinna daglegum þörfum þessara barna.

Nei, við erum því miður langt á eftir í þessum málum. Ég tel ekki ásættanlegt að við ætlum að setja hlutina á bið. Þær 80 milljónir sem er búið að setja inn í þetta eru dropi í hafið. Fram hefur komið að það kosti 1,5–1,7 milljarða að taka á þessum hlutum, þeir peningar ættu að koma strax í dag. Við ættum að fá þá peninga á stundinni vegna þess að annað eins er búið að setja í aðra hluti. Ef við settum þessa peninga inn strax í dag myndi hver króna af þeim, ég er sannfærður um það, skila 100 kr. í arð, og bara afleiðingarnar sem það myndi hafa á líðan og framtíðarhorfur bæði barnanna og fjölskyldnanna væru gífurlegur ávinningur. Og svo skulum við ekki gleyma því að við þurfum ekki bara að tala um það fjárhagslega heldur líka hið andlega og líkamlega og heilsu þessara einstaklinga og framtíðarhorfur. Það verður ekki metið til fjár. Það er eiginlega bara ómetanlegt og þess vegna er þetta svo brýnt. En því miður, framtíðarsýn þessarar ríkisstjórnar í málefnum barna er á hennar ábyrgð. Hún segist ætla að gera eitthvað í framtíðinni, en ég held því miður að ráðherrarnir átti sig ekki á því að það þarf að gera það í nútíð, núna strax.