151. löggjafarþing — 64. fundur,  4. mars 2021.

endurskoðun almannatryggingakerfisins.

[13:31]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Við fáum einmitt inn í fjárlaganefnd tilkynningu um þennan 1,1 milljarð sem fór í einhvern málaflokk sem var víst rangur málaflokkur og núna þarf að millifæra af þeim málaflokki yfir í annan málaflokk, ekki 1,1 milljarð heldur 1,5 til 2 komma eitthvað milljarða. Maður stendur bara eftir og spyr sig: Hvað er í gangi? Þegar maður les lögin sér maður til að byrja með hversu flókin þau eru og í öðru lagi þau skýru skilaboð í 69. gr. um að bætur eigi að fylgja launaþróun eða verðbólgu. En þegar kerfið tekur við því og túlkar lögin er reyndin síðan að niðurstaðan er einmitt lægri kjarabætur en launaþróunin er þegar allt kemur til alls. Það sést bara mjög skýrt og skilmerkilega í gögnunum. Meira að segja þegar við reynum að vera skýr hérna þá túlkar kerfið það einhvern veginn á verri hátt fyrir skjólstæðinga okkar, (Forseti hringir.) fyrir þegnana hér úti, fyrir fólkið sem treystir á þennan lífeyri. (Forseti hringir.) Það túlkar niðurstöðuna, það sem við viljum að það geri, á mun verri hátt.