151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

velferð dýra.

543. mál
[18:47]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir framsöguna á frumvarpi til laga um breytingu á lögum um velferð dýra. Í stuttu máli þá get ég sagt að ég geri verulegar athugasemdir við þá framsögu sem hér fór fram. Sá ágæti iðnaður sem hér er til umræðu hefur verið stundaður hér á landi og var fyrst byrjað á þessu 1980 og um árið 2000 var stofnað líftæknifyrirtækið Ísteka ehf. og er því rétt liðlega 20 ára gamalt. Það eru um 100 bændur sem stunda þessa iðju, þ.e. að halda hryssur og eðlilega, eins og kom fram í máli hv. þingmanns, þá gengur þessi búskapur út á það að hryssunum er haldið, þær kasta, ganga með folöld og það er tekið úr þeim blóð á tímabili sem er um tveir og hálfur mánuður, ekki tveir mánuðir eins og kom hér fram. Það er tveir og hálfur mánuður. Að hámarki er blóð tekið átta sinnum en að meðaltali er það gert fimm sinnum. Þetta er jú töluverður iðnaður og við þann iðnað held ég að sé óhætt að segja að farið er mjög vel að skepnunum heilt yfir. En vissulega geta alltaf komið einhver frávik og það gerist í öllum rekstri og þá er tekið á því. Ég þekki ekki til þess sem kom fram í máli hv. þm. Ingu Sæland, að það séu einhverjir leikmenn sem taka blóð úr hryssunum hér á landi. Það er fjöldinn allur af dýralæknum vítt og breitt um landið sem tekur blóð úr hryssunum.

Ég skal fara stuttlega yfir það hvernig þetta er gert. Þá ætla ég að byrja á því að fjalla um Ísteka. Þetta er líftæknifyrirtæki og nýsköpunarfyrirtæki sem vinnur blóð úr íslenskum hryssum og vinnur verðmætt lyfjaefni. Jú, vissulega er unnið ákveðið hormón sem notað er í frjósemislyf. Nánast allar afurðirnar eru fluttar úr landi. Þetta skapar gjaldeyri og fyrirtækið veltir um 1,5 milljörðum kr. á hverju ári. Hjá þessu ágæta fyrirtæki starfa rúmlega 40 manns. Þar af er helmingurinn háskólamenntaður. Hjá Ísteka starfar sérstakur dýravelferðar- og gæðafulltrúi sem hefur, samkvæmt samningi við bændur, aðgengi að þeim hrossum og aðstöðu sem nýtt eru í þetta verkefni. Ísteka starfar samkvæmt leyfi frá Lyfjastofnun. Lyfjaefnið frá Ísteka er vottað af FDA í Bandaríkjunum og af Evrópsku lyfjastofnuninni og Lyfjastofnun hér á Íslandi. Fyrirtækið uppfyllir alþjóðlega GMP-staðalinn sem viðurkenndur er í lyfjageiranum. Blóðtakan sjálf er undir eftirliti Matvælastofnunar.

Nú er ég bóndi og þó að ég sé bóndi er ég líka dýravinur. Bændur eru dýravinir og ég líð það ekki að menn séu hér uppi með málflutning um eitthvað annað þegar þeir ræða um búskap, eins og menn séu eitthvað að leika sér með skepnur. Það er bara rugl, ekkert annað en rugl. Öll blóðtakan er gerð af dýralæknum og undir opinberu eftirliti frá Matvælastofnun. Allt ferlið í þessu er opið og gegnsætt og Matvælastofnun eru gefnar ítarlegar skýrslur um málið. Öll blóðtaka er gerð með staðdeyfingu. (Gripið fram í.) Já, það er staðdeyfing þegar skepnan er … (IngS: Talandi um rugl og bull.) Þetta eru þau gögn sem ég hef undir höndum, hv. þingmaður.

Eins og ég kom inn á áðan er að meðaltali tekið blóð fimm sinnum á tveimur og hálfum mánuði en mest átta sinnum og er vel fylgst með heilbrigði hryssanna eftir blóðgjöf. Ef ég tók rétt eftir áðan þá eru engin dæmi þess að hryssur hafi drepist vegna blóðmissis. (Gripið fram í.) Það er vel haldið utan um þetta og miðað við þau gögn sem ég hef undir höndum eru afföll þau sömu og gengur og gerist í náttúrunni. Það er 0,1% af fylfullum hryssum sem farast á tímanum og það er ekki staðfest að það sé vegna þess að það var tekið úr þeim blóð.

Það er ákveðinn dýravelferðarsamningur sem nýsköpunarfyrirtækið Ísteka hefur og fylgir eftir. Þetta er eina afurðarfyrirtækið sem starfar í íslenskum landbúnaði sem gerir sérstakan velferðarsamning við bændur á grundvelli allra þeirra viðskipta sem Ísteka hefur við bændur. Það eru í gildi 100 dýravelferðarsamningar milli Ísteka og bænda. Velferðarsamningarnir eru byggðir á skilyrðum Matvælastofnunar og fagráðs um dýravelferð sem sett er í samræmi við nýjustu lög og reglugerðir. Þeir innihalda m.a. sérstök ákvæði um nærgætni í umgengni og hvíld hrossanna, kvaðir um skráningu allra hrossa í gagnagrunninn WorldFeng hjá Matvælastofnun, sérstök ákvæði um gott beitiland og aðgengi að vatni og saltsteinum. Sérstök ákvæði um góða aðstöðu þar sem blóðgjöf fer fram. Sérstök ákvæði um að ekki megi taka blóð úr hryssum á bæjum þar sem komið hafa upp frávik við velferð hrossa samkvæmt Matvælastofnun. Eins og hv. þingmaður kom inn á áðan er búið að gera athugasemdir við þrjá bæi af 100. — Þrjá bæi af 100. Tryggt er að folöld fái að ganga undir mæðrunum eins og þau vilja, m.a. til að næringarástand bæði folalds og móður verði eins og best verður á kosið, þannig að það er bara eðlilegt við þessar aðstæður að hryssurnar gangi með folöldin.

Sjálfur þekki ég ágætlega til þessa búskapar þótt ég stundi hann ekki sjálfur, og ég get ekki séð að verið sé að fara illa með skepnur, ekki á nokkurn einasta hátt, enda eru þær allar undir eftirliti. Það er þannig, hv. þingmaður, að það er eftirlit með þessum búskap og þess vegna, eins og þú komst inn á í þinni ágætu ræðu, er það þannig að þar sem eru frávik — þrjú frávik, þrír bæir af 100 — þar eru gerðar athugasemdir.

Í þessum velferðarsamningi eru fóstureyðingar ekki leyfðar hjá hryssum sem eru í þessu verkefni. Þessi velferðarsamningur er gerður við alla bæina 100 sem eru í þessum verkefnum. Ísteka fær afrit af eftirlitsskýrslum Matvælastofnunar frá þeim bændum sem eru í þessu samstarfi.

Virðulegur forseti. Ég get eiginlega ekki verið meira ósammála því ágæta frumvarpi sem hér er vegna þess að það stangast á við allar þær upplýsingar sem ég hef um þennan búskap. Að menn séu hér í einhverjum leik að pynda skepnur — ég skal alveg taka það gott og gilt ef menn hafa einhver dæmi að utan. Þau þekki ég ekki. En ég þekki það hvernig staðan er á þessu landi og það er ekki í nokkru einasta samræmi við það sem stendur í greinargerðinni sem fylgir frumvarpinu, bara ekki nokkru. Það er líka ágætt að hafa eitt í huga. Jú, vissulega eru það 14–17% sem eru tekin, sem eru 5 lítrar. Ef mannfólk fer og gefur blóð þá eru það sirka 12% sem eru tekin úr okkur, 12%. (IngS: Einu sinni í viku?) Sumir fara nokkrum sinnum á ári. Við erum að tala um fimm til átta sinnum á ári í þessu tilfelli, að meðaltali fimm sinnum, hámark átta sinnum, það má ekki fara upp fyrir átta skipti. Það er líka þannig að þegar meðaltalið er fimm, hvert skipti sem blóð er tekið, þá eru sumar hryssur sem framleiða hormónið bara í visst langan tíma. Ef maður er með tvo og hálfan mánuð og deilir þeim vikufjölda í fimm, þá þýðir ekki að alhæfa að allar hryssur séu teknar einu sinni í viku. Það passar bara ekki. Sú reikningskúnst gengur ekki upp í mínum huga.

Það eru 5.000 hross sem eru í þessu. Maður hefur séð umræðu um þennan búskap á samfélagsmiðlum. Og þegar fólk fullyrðir þar ýmislegt um aðbúnað hrossa og þess háttar þá vil ég bara segja hér í þessum ágæta ræðustól: Það er þannig með alla starfsemi að það eru alltaf einhver frávik hjá okkur, í öllu sem við gerum. En það þýðir ekki að tromma fram með það að refsa þeim sem standa sig vel vegna þess að það eru einhverjir skussar á meðal þeirra. Skussana á að taka úr umferð. En þessir þrír sem hv. þingmaður minntist á í framsögu sinni, að sjálfsögðu … (IngS: Þeir eru enn að sjúga blóð.) Ég veit ekkert um það. Það er varla verið að sjúga blóð í janúar eða mars. (IngS: Nei, þeir bíða bara.) Hingað til hefur það verið þannig að ef menn standa sig ekki í búskap þá eru ákveðnar aðgerðir settar í gang á vegum Matvælastofnunar og þeim hefur hingað til verið framfylgt og til þess erum við með öll þessi eftirlitsbatterí. Við erum með Matvælastofnun sem sér um ýmsa þætti.

Síðan vil ég ítreka það hér í restina að ég hef ekki heyrt annað um þetta ágæta fyrirtæki, Ísteka, sem þarna er, en að það fari mikill og góður orðstír af því. Það hefur átt í mjög góðum samskiptum við bændur og dýralækna vítt og breitt um landið. Ég ítreka að þau eru með velferðarsamning við hvern og einn bónda þar sem menn verða að framfylgja ákveðnum reglum. Ég vil að beina því til hv. flutningsmanna í þessu samhengi að við ættum kannski að fara saman í heimsókn til Ísteka og fá góða fræðslu um hvað verið er að gera þar.