151. löggjafarþing — 71. fundur,  18. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[16:09]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég hefði nú viljað fá svör við hvoru tveggja vegna þess að ég hef nóg annað að spyrja um. Varðandi svar hv. þingmanns við fyrri spurningu minni: Gagnrýnt hefur verið m.a. að talað sé um heildarúthlutun upp á 100 millj. kr. fyrir landsbyggðina. Ég verð að spyrja hv. þingmann, sem er nú þingmaður landsbyggðarinnar rétt eins og ég: Er það nóg? Er það í alvörunni nóg? Þykir það einhvers konar framför að í stað þess að hafa fólk í heimabyggð á ýmsum stöðum um landið, sem þekkir málin, þekkir byggðina, þekkir svæðið og hefur bein persónuleg tengsl við fólk, sé einhvers konar stafræn gátt með andlitslausu forriti sem fólk talar við til að geta mögulega keppt um 100 millj. kr.? Er það nóg? Kannski er við það að bæta að núna verð ég líka að spyrja út í tímasetninguna á þessu. Ég veit að það er ákveðin klisja að gagnrýna tímasetningu, en við verðum að horfast í augu við það að nú er búinn að vera heimsfaraldur í gangi og búinn að vera samdráttur á Íslandi upp á 10,4%, sem skýrist aðallega af Covid. Gætum ekki beðið aðeins með að kippa fótunum undan nýsköpunarumgjörð landsins þangað til að ástandið hefur batnað, jafnvel sleppt því að kippa fótunum undan henni og byggja hana frekar upp?

Svo verð ég að lokum að spyrja einnar spurningar: Nú er búið að færa efnagreiningar til Hafrannsóknastofnunar. Í hvaða heimi er það besta ráðstöfunin á efnagreiningum?