151. löggjafarþing — 71. fundur,  18. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[17:42]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann veltir fyrir sér, eins og margir fleiri þingmenn, hvers vegna verið sé að búa til eitthvað nýtt þegar ekki er vitað hvort það er betra en það sem fyrir er. Hér er ekki búið að gera úttektir og greiningar og ekki búið að hugsa málið í gegn.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvað honum finnist um stuðning við nýsköpun utan höfuðborgarsvæðisins. Við landsbyggðarþingmenn höfum orðið vör við mikla kergju úti um landið út í þessa ráðstöfun og mikla óvissu lengi um hvað yrði um nýsköpunarstöðvarnar úti um landið. Gert er ráð fyrir 100 millj. kr. sjóði til eflingar nýsköpun utan höfuðborgarsvæðisins en í reglunum er skýrt kveðið á um að lögaðilar í meirihlutaeigu ríkisins eða sveitarfélaga skuli ekki vera leiðandi aðili í þeim verkefnum sem hljóta styrk. Hins vegar eru það sveitarfélögin sem eru svolítið að passa upp á frumkvöðlastarf og nýsköpunarstarf úti um landið.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort það hefði ekki verið betra að styrkja sóknaráætlanir landshluta um 100 milljónir. 100 milljónir eru kannski lág upphæð þegar verið er að skipta á milli margra verkefna en hefði ekki bara mátt í þessu samhengi styrkja sóknaráætlanir landshluta myndarlega?