151. löggjafarþing — 71. fundur,  18. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[18:20]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Albertína Friðbjörg Elíasdóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég gat ekki látið hjá líða að koma hingað upp og þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir sérstaklega gott samstarf í þessum 1. minni hluta. Það liggur svo sem í hlutarins eðli að við erum nokkuð sammála um þetta mál. Það er reyndar svolítið gaman að því að við höfum líka getað verið sammála um að vinnan í nefndinni sem slíkri hvað þessi mál varðar hafi verið góð. Samtalið um málið var gott. Eins og ég nefndi í ræðu minni áðan held ég að það sé til fyrirmyndar og það væri óskandi að við næðum svona góðu samtali um fleiri mál í þinginu. Ekki það að ég hefði viljað gera miklu meiri grundvallarbreytingar á frumvarpinu en gerðar eru en þar steytir líka á meiri og minni hluta.

Mig langaði að nýta tækifærið og ræða aðeins við hv. þingmann um frumvarpið. Hv. þingmaður kom inn á marga mjög áhugaverða punkta. Ráðherra talar einmitt, eins og hv. þingmaður vísaði til í ræðu sinni, um að einfalda kerfið. Einfalda það, skýra verklag og skila fjármunum í ríkissjóð, spara. Það er verið að spara í útgjöldum til nýsköpunarmála. En er það ekki einmitt vandamálið að með þessu frumvarpi, og vegna þess hvernig það er unnið, þá sjáum við í raun fram á aukið flækjustig, aukinn kostnað, hjá ríkissjóði en ekki síður hjá frumkvöðlum? Og sjáum við ekki fram á flóknara stoðkerfi þar sem það eru fleiri aðilar sem þarf að leita til og fleiri sjóðir sem þarf að eyða tíma í að sækja í, í von og óvon um að fá styrk?