151. löggjafarþing — 71. fundur,  18. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[18:54]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Já, ég held að þetta sé mjög góð lýsing á þessu vandamáli, það vantar grindina á bak við. Það er farið út í þessa vegferð áður en drög liggja fyrir að því hvernig frumvarpið lítur út. Ákveðið er að leggja Nýsköpunarmiðstöð niður áður en við vitum hvað á að taka við, áður en grindin er komin. Svo ég sé alveg heiðarlegur með það þá gerist það mjög oft í pólitíkinni að það kemur gagnrýni á einhverjar ákvarðanir stjórnvalda um að ekki sé lagt í nægilega greiningarvinnu. En það er svo augljóst í þessu máli að hún er ekki til staðar og það litla sem til er gæti ekki flokkast sem greiningarvinna á neinn hátt, er í rauninni eftiráskýringar til að reyna að færa fullyrðingar ráðherra að einhverju sem er í áttina að sannleikanum, þ.e. að þetta spari yfirbyggingu sem var í Nýsköpunarmiðstöð þrátt fyrir það að verkefnin færist yfir í aðrar stofnanir með tilheyrandi kostnaði líka. Okkur er ekki svarað með það hver nýi stjórnsýslukostnaðurinn er við flutninginn eða hvort auðveldara sé fyrir þá sem sækjast eftir nýsköpunarþjónustunni að nálgast hana núna þegar hún er jafnvel komin á fleiri en einn stað. Það vantar algerlega að útskýra fyrir okkur þetta flæði fjármagns í nýsköpunarverkefni sem stjórnvöld hafa frumkvæði að að leggja til nýsköpunar. Hvert fer fjármagnið, í gegnum hvaða leiðir — sóknaráætlanir, Brothættar byggðir og þess háttar — áður en þessar breytingar taka gildi og hvernig breytast þær eftir að þessar breytingar taka gildi? (Forseti hringir.) Hver er munurinn á upprunalegu upphæðinni í fyrra fyrirkomulagi(Forseti hringir.) og niðurstöðunni í seinna fyrirkomulagi?