151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

útvegun bóluefnis og staða bólusetninga.

[13:07]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Ég hvet hæstv. ráðherra til að veita okkur eins miklar upplýsingar og hann getur í seinna andsvari hvað varðar áform stjórnvalda, hvað þau sjá fyrir sér. Einnig hvet ég hæstv. ráðherra til að leita allra leiða til að afla bóluefnis fram hjá ESB-klúðrinu. Meira að segja Evrópusambandslönd eru nú farin að leita sjálf, eins og í tilviki Danmerkur fyrst hún var nefnd hér áðan, í samstarfi við Austurríki, annað Evrópusambandsland, sem hafa núna nálgast Ísrael með það fyrir augum að útvega bóluefni í gegnum Ísrael. Að minnsta kosti eru þjóðir og ríkisstjórnir víða um lönd að leita allra leiða til að afla aukins bóluefnis og ég hefði haldið að Ísland hefði ákveðna sérstöðu sem ætti að gera okkur kleift að ná árangri í slíkum tilraunum.