151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[14:17]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Smára McCarthy fyrir andsvarið. Ég nefndi þá upphæð sem hér hefur verið hent á lofti varðandi það að spara með lokun Nýsköpunarmiðstöðvar. Ég man ekki betur en hæstv. ráðherra hafi nefnt að hann ætlaði að skila til baka í ríkissjóð einhverjum 300 milljónum. En þetta er auðvitað umræða á villigötum. Við þurfum að verja meira fé til nýsköpunar, við erum að fjárfesta til lengri tíma. Auðvitað á markmiðið ekki að vera að spara, það er algerlega misráðin nálgun. Við þekkjum viðbrögð nágrannalanda okkar. Þau eru öll að fjárfesta í nýsköpun og leggja háar fjárhæðir, sérstaklega á þessum tímum, í umhverfisvæna valkosti og nýsköpun af öllu tagi og telja það vera vaxtarsprota til framtíðar. Ég tel auk þess að ekki hafi verið sýnt fram á það með neinum rökum hvernig ná eigi fjárhagslegum sparnaði eða hagræðingu með því að leggja Nýsköpunarmiðstöð niður. Ég held að ekki hafi verið sýnt fram á það með óyggjandi hætti og alls ekki sýnt fram á það hvernig nýsköpunarstarf á Íslandi, umgjörð þess, verði styrkt með þeim aðgerðum sem ráðherra leggur til í frumvarpinu.