151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[21:07]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir og það gleður mig að heyra að staðan er þessi. Ég er aðeins hugsi yfir því að þetta skuli ekki hafa skilað sér til þeirra fjölmörgu aðila sem komið hafa fyrir nefndina og það er kannski eitthvað sem gera þarf bragarbót á, hvort sem um er að ræða samskipti sem hafa einhvern veginn misfarist eða vantraust af hálfu sveitarfélaga og annarra aðila. Það er þá verkefni sem hæstv. félagsmálaráðherra stendur frammi fyrir að bæta. Mig langar líka til að minna á fyrri spurningu mína sem laut að því hvort ekki væri þörf á því af hálfu hæstv. ráðherra að fara í stefnuna í þessum málum.

Síðan langar mig rétt að spyrja um eitt. Nú erum við slá met, slæmt met, í aukningu í atvinnuleysi. Það hafa fjölmargar tillögur um aðgerðir verið viðraðar frá upphafi þessa faraldurs og ég þreytist ekki á því að nefna að við í Viðreisn töluðum um stór skref strax og vorum með fjölmargar tillögur. Það getur vel verið að þær eldist ekki allar jafn vel frekar en önnur mannanna verk, en þær eiga eitt sameiginlegt; þær voru allar felldar umhugsunarlaust á því ári sem liðið er af hálfu stjórnarmeirihlutans. Hið sama á við um fjölmargar tillögur annarra flokka í stjórnarandstöðunni. Sumar tillagnanna hafa síðan dúkkað upp núna af hálfu stjórnarmeirihlutans til að bregðast við því mikla atvinnuleysi sem við stöndum frammi fyrir. Við skulum ekki gera lítið úr þeim vanda sem blasir við ef við náum ekki að leysa þetta hratt og vel. Það er samfélagslegt mein sem við munum verða lengi að ná okkur upp úr.

Mig langar að nýta síðustu sekúndur mínar í að óska eftir áliti hæstv. ráðherra, sem ég þekki af því að vera maður til að sjá oft stóru myndina, á því hvort ekki hefði verið heillavænlegt ef nálgun ríkisstjórnarflokkanna frá upphafi gagnvart tillögum stjórnarandstöðunnar hefði verið meira í anda samvinnu og samstillts átaks frekar en þessarar hefðbundnu (Forseti hringir.) skotgrafapólitíkur að hér skuli allt fellt sem komi þaðan, og hitt allt samþykkt. (Forseti hringir.) Við hefðum getað sparað mikinn tíma með öðruvísi vinnubrögðum. Hvað segir hæstv. ráðherra við því?