151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[14:11]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Hvað hef ég nú verið að bralla undanfarin ár? Við erum að koma Kríu af stað sem hefur tekið mikinn tíma og höfum vandað til verka, það er verkefni sem ég er mjög stolt af. Lóa er sömuleiðis ný og mun efla nýsköpunarumhverfið. Hækkun á endurgreiðslu vegna rannsókna og þróunar, breytingar á stofnanaumhverfinu. Auðna, tæknitorg er orðið til. Við erum búin að gera átta samninga og fleiri eru á leiðinni um að byggja upp stafrænar smiðjur úti um allt land. Við sjáum að stóraukið fé er að koma að utan hingað til landsins sem sýnir að fólk er tilbúið að veðja á íslenskt hugvit og þessi fyrirtæki. Staða á nýsköpunarindexinum ræðst m.a. af öðrum þáttum í hagkerfinu. Þannig þarf að taka stöðu á honum með fyrirvara. Það eru margir mælikvarðar sem sýna aukningu í nýsköpun, m.a. aukna fjárfestingu innlendra og erlendra aðila, þannig að það er gott. Lækkun á Global Innovation Index er m.a. vegna þess að hagkerfið stækkaði mjög á síðustu árum, m.a. vegna fjölgunar ferðamanna. Það þarf að horfa á það í því samhengi sem hagkerfið er hverju sinni.

Þær aðgerðir sem við erum að vinna að núna eiga að skila sér í bættu umhverfi á næstu árum. Ef ég væri stjórnmálamaður sem legði ekki til breytingar nema ég sjálf fengi hrósið fyrir á sama tíma og ég legg þær fram væri ég ekki að leggja þetta til. En margt af því sem við höfum verið að vinna að undanfarin ár og erum að innleiða núna er að komast af stað og mun blómstra og fólk mun sjá hversu vel hefur gengið og umhverfið hefur batnað. Þá verður líklega einhver annar í brúnni í ráðuneyti nýsköpunar en ég trúi á það sem við erum að gera. Við leyfum okkur að horfa til lengri tíma af því að við ætlum að byggja upp nýsköpunarumhverfi á Íslandi til lengri tíma sem alvörustoð í íslensku hagkerfi, sem alvöruleið til að tryggja að fólk vilji búa hérna, að okkar eftirsóttasta fólk sjái hag sinn í því að spreyta sig á Íslandi og stofna fyrirtæki hér og við séum samkeppnishæf við löndin í kringum okkur og séum með umhverfi sem hjálpar okkur að leysa allar þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir og búa okkur undir mikla óvissu sem framtíðin vissulega er.