151. löggjafarþing — 78. fundur,  14. apr. 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[14:20]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Frú forseti. Ég vil aðeins víkja að Tækniþróunarsjóði. Hér er stefnt að því að setja sérlög um þann sjóð en hann hefur til þessa verið hluti af heildarlögum um opinberan stuðning við tækniþróun, nýsköpun og atvinnuþróun. Mikilvægt er í þessari vinnu að gæta samræmis í allri lagasetningu er varðar nýsköpun. Tækniþróunarsjóður gegnir lykilhlutverki í þessu stuðningskerfi nýsköpunar hér á landi og er í raun sú grein ríkissjóðs sem styðja skal við tækniþróun í landinu. Þess vegna er lagagrundvöllur hans forsenda fyrir því að við getum nýtt auðlindir okkar og mannafla á þessu sviði, staðið jafnfætis öðrum þjóðum, þróuðum þjóðum, í lífskjörum og byggt grunn undir framleiðsluiðnað sem atvinnugrein og nýtt íslenskt hugvit til að ná markaðsforskoti á heimsvísu í ýmsum greinum. Þetta eru göfug og mikilvæg markmið.

Fjárveitingar til tækniþróunar hérlendis hafa hingað til verið töluvert minni en hjá öðrum þjóðum. Íslensk stjórnvöld hafa þó á síðustu árum bætt örlítið úr þessu í tengslum við faraldurinn, og er það vel, og veitt aukið fé í þennan málaflokk. Engu að síður stöndum við illa í alþjóðlegum samanburði og nánast allt það fé sem fer til tækniþróunar hefur runnið til Tækniþróunarsjóðs. Það er annað í þessu, þ.e. að Tækniþróunarsjóður getur ekki verið óháður burðaraðili styrkveitinga til nýsköpunar í landinu á sama tíma og hann er eignaraðili einstakra sprotafyrirtækja. Í því liggja hagsmunaárekstrar og er athyglisvert að skoða umsagnir sem hafa borist til nefndarinnar. Ef við skoðum aðeins umsögn frá Samtökum frumkvöðla- og hugvitsmanna þá hafa þeir einmitt áhyggjur af hagsmunaárekstrum og gera athugasemdir við það í umsögn sinni. Þeir segja t.d. í staflið b að það verði m.a. hlutverk Tækniþróunarsjóðs að styrkja uppbyggingu sprotafyrirtækja og eiga aðild að þeim á frumstigi nýsköpunar. Samtök frumkvöðla og hugvitsmanna telja að þetta tvennt fari alls ekki saman. Tækniþróunarsjóður er samkeppnissjóður og hlýtur sem slíkur að þurfa að vera óháður og hlutlaus matsaðili umsókna í sjóðinn. Ef Tækniþróunarsjóður á sjálfur aðild að verkefni sem sækir um stuðning í samkeppni við önnur verkefni er hann í raun og veru ekki óvilhallur matsaðili heldur beinn hagsmunaaðili. Hér benda samtökin á augljósa hagsmunaárekstra og ég get ekki séð að þetta hafi verið sérstaklega skoðað í nefndinni, ég hef ekki orðið var við það. Þetta getur, segja þeir hér, haft það í för með sér að ógilda matsniðurstöður umsókna og að sama gildi þó að verkefni með eignaraðild í Tækniþróunarsjóði sæki ekki um stuðning í samkeppni við aðra. Einungis sú staðreynd að Tækniþróunarsjóður á í samkeppni við aðra umsækjendur um framgang verkefna ógildir allar matsniðurstöður Tækniþróunarsjóðs.

Það er svolítið athyglisvert að menn hafi ekki beint sjónum sínum að þessu í ríkari mæli. Sjóðurinn er alfarið sniðinn að þörfum háskólasamfélagsins, stórra starfandi fyrirtækja. Ég held að það sé alveg augljóst, menn sjá það. Ekki er að finna ákvæði um að tiltekinn hluti ráðstöfunarfjár sé ætlaður verkefnum einstaklinga sem eru með verkefni á byrjunarstigi. Það eru oft á tíðum ákaflega mikilvægir hópar og áfram virðast einyrkjar á sviði frumkvöðlastarfs og nýsköpunar þurfa að keppa við stóru fyrirtækin og ríkisstyrkta háskóla. Það virðist vera ætlunin að fela öll völd, stærstu opinberu sjóðina á þessu sviði, í hendur fámenns hóps stórra hagsmunaaðila og minni hópar, eins og hagsmunasamtök frumkvöðla og hugvitsfólks, hafa verið sniðgengnir.

Áfram er gert ráð fyrir því að Vísinda- og tækniráð skipi fagráð Tækniþróunarsjóðs og áfram er gert ráð fyrir því að Samtök frumkvöðla og hugvitsmanna fái enga aðkomu að ferli því sem skiptir meginmáli til að ný verkefni einstakra hugvitsmanna geti orðið að veruleika. Ég hef áður rætt hér, kom inn á það í 1. umr. þessa máls, mikilvægi þess að styðja við bakið á samtökum hugvitsfólks, þessum minni aðilum. Ég hef því miður talað fyrir daufum eyrum nýsköpunarráðherra hvað það varðar. Það er athyglisvert, í umsögn Samtaka frumkvöðla og hugvitsmanna, að ráðherra málaflokksins fær svolitla ofanígjöf. Talað er um að þessi mikilvægi hópur, sem telur, að ég held, á fjórða hundrað félagsmanna, sé sniðgenginn. Félögin hafa ítrekað bent á að ýmsir vankantar séu í lagasetningu og framkvæmd í stjórnkerfi nýsköpunar sem hindri framgang nýsköpunarverkefna og svo hnykkja þau á því í umsögn sinni að félögunum hafi markvisst verið haldið frá allri aðild að stjórnum, nefndum og ráðum sem stjórnvöld skipa í til að stýra málefnum stuðningsumhverfisins. Það er að sjálfsögðu óeðlilegt og hér er þess getið að atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra hafi gengið, eins og það er orðað hér, hart fram gegn hugvitsfólki og frumkvöðlum í þessu efni og markvisst gengið fram með fordómum. Nú er hæstv. ráðherra ekki hér til að svara fyrir þetta en þetta kemur fram í umsögn þessara aðila og þarfnast að sjálfsögðu viðbragða af hálfu ráðherra. Þeir nefna t.d. skipun í stýrihóp, þar sem þessi hópur hafi verið sniðgenginn, til að móta nýlega nýsköpunarstefnu, að í raun og veru sé verið að leggjast gegn fjárveitingu til þessa hóps. Ég vil þó taka það fram að fjárlaganefnd veitti sérstakan styrk upp á 5 millj. kr. til þessara samtaka við afgreiðslu fjárlaga og ég vil þakka formanni nefndarinnar fyrir að hafa tekið vel í það erindi, það var ákaflega mikilvægt því þessi samtök hafa ekki fengið stuðning í langan tíma. En það er líka áhyggjuefni að hæstv. ráðherra skuli ekki sýna þessum hópi nægilegan áhuga, þetta er nú einu sinni það sem skiptir verulegu máli þegar við horfum til nýsköpunar, það eru þessir frumkvöðlar, einstaklingar, einyrkjar sem koma fram með hugmyndir sínar og þurfa stuðning til að koma þeim á framfæri, hugmyndum sem geta síðan orðið að stórum verkefnum, skapað fjölda starfa o.s.frv. Það á að taka vel á móti þessu fólki og reyna að aðstoða það eins og mögulegt er en ekki útiloka það í þessu ferli. Þegar verið er að fjalla um nýsköpunarstefnu o.s.frv. eru sjónarmið þessara aðila ákaflega mikilvæg.

Það er sem sagt mikilvægt fyrir stefnu stjórnvalda að styðja markvisst við uppbyggingu á nýsköpunardrifnum atvinnuvegum og stuðla þannig að vexti sprota- og nýsköpunarfyrirtækja, auk þess að tryggja að á Íslandi sé aðgengi að fjármagni sem er sérhæft fyrir þess háttar starfsemi. Það er af hinu góða að fjölga sjóðum sem frumkvöðlar geta leitað til, svo framarlega sem þeir sem þar eru séu víðsýnir og setji ekki öll eggin í sömu körfuna, eins og gerðist reyndar með nýsköpunarsjóð árið 2000 þegar hin svonefnda tæknibóla sprakk. Það sem vantar kannski allra mest fyrir frumkvöðla á byrjunarstigi er þolinmótt fjármagn og að hvert og eitt verkefni verði metið og í því fjárfest svo lengi sem þurfa þykir allt þar til frumgerð hefur sannað sig. Það þýðir ekki að veita fjármagn í verkefni til þriggja ára ef verkefnið er það stórt og umfangsmikið að fyrirséð er að það klárist ekki á svo skömmum tíma. Menn verða að hafa ákveðna þolinmæði og horfa til þess að á endanum geti verkefnið orðið af hinu góða og skapað störf, og góð hugmynd orðið að veruleika með þeim hætti að undir það heyra þá margar fjölskyldur sem hafa atvinnu af því. Við þekkjum það að stórfyrirtæki hafa orðið til fyrir hugmyndir fárra aðila og jafnvel einyrkja.

Það eru allt of mörg verkefni skilin eftir úti í miðri á, ef svo má að orði komast. Það eru slík verkefni sem þurfa þetta þolinmóða fjármagn og meiri tíma til að sanna sig og það þarf að halda vel utan um þau verkefni. Klárlega er allur raunverulegur og skilvirkur stuðningur við nýsköpun af hinu góða og það skiptir miklu máli að fjármunirnir nýtist vel til nýsköpunar. Nýsköpun er ekki eins og hver annar bankarekstur þar sem fljóttekinn gróði er í fyrirrúmi. Það er þolinmæðin sem skiptir mestu máli í þessu. Það hefur t.d. verið gallinn við Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins að fjárfestingar hans hafa miðast við þennan skjótfengna arð en ekki að leggja áhættufé í nýsköpunarverkefni. Þannig hafa t.d. nýsköpunarverkefni á fyrri stigum verið útilokuð frá aðstoð hans. Við fyrstu sýn sýnist mér að þessi sjóður gagnist lítið þeim sem eru upp til hópa á frumstigi nýsköpunar.

Það er að sjálfsögðu skynsamlegt af stjórnvöldum, í því árferði sem við erum, að setja aukið fé í nýsköpun og við í Miðflokknum höfum sannarlega stutt það og lagt það til. Hins vegar virðist eiga að ráðstafa því mestöllu eftir þessum sama farvegi í Tækniþróunarsjóð. Það er eitthvað sem hefði þurft að fara mun betur yfir, hvort það væri skynsamlegt. Hefði t.d. ekki verið skynsamlegra að efla aðra sjóði sem starfa við hlið Tækniþróunarsjóðs, t.d. Orkusjóð? Þótt Tækniþróunarsjóður sé að mörgu leyti ágætur og bjóði upp á margbreytt úrræði er alltaf óheppilegt þegar ein stofnun hefur allt um það að segja hverjir fá þolinmóða líflínu í þessum efnum og hverjir ekki þegar kemur að þeim mikilvæga málaflokki sem við ræðum hér.

Í lokin, af því að tíminn er nú að renna út, rakst ég hér einnig á umsögn frá Ríkisendurskoðun. Ríkisendurskoðun bendir á að samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um einkahlutafélög þarf yfirlýsing löggilts endurskoðanda að fylgja með stofnanasamningi þegar hlutafé er greitt með öðrum verðmætum en reiðufé.

Frumvarpið sem við fjöllum um hér kveður á um það að undanþága skuli vera frá þessu ákvæði laga um einkahlutafélög en í greinargerð er ekki að finna skýringar á þeirri undanþágu. Þannig er gert ráð fyrir því að umrædd yfirlýsing þurfi ekki að fylgja stofnanasamningi. Þetta er að mati Ríkisendurskoðunar óheppilegt, sérstaklega í ljósi þess að ákvæði til bráðabirgða í IV. og V. kafla kveða á um ákveðnar ráðstafanir á tilteknum eignum Nýsköpunarmiðstöðvar. Ég held að það sé mikilvægt að þetta verði haft í huga. Að þessu sögðu þá held ég að það sé margt í þessum málum (Forseti hringir.) sem við þurfum að setjast betur yfir. Sérstaklega finnst mér áhyggjuefni hvernig þessi litli hópur, samtök hugvitsmanna og kvenna, er undanskilinn í þeirri stefnumörkun sem nauðsynleg er í þessum málaflokki. Ég vona að bætt verði úr því.