151. löggjafarþing — 82. fundur,  21. apr. 2021.

sóttvarnalög.

743. mál
[18:07]
Horfa

Flm. (Logi Einarsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Stundum er það nú þannig í lífinu að maður er bjartsýnn og trúir að hið augljósa verði ofan á. Ríkisstjórnin sagði strax eftir þennan dóm að þau myndu setjast niður og velta fyrir sér viðbrögðum. Mig minnir að þetta hafi verið í páskaleyfi og við komum hérna saman í síðustu viku, en svo á endanum gerist það bara að mann þrýtur þolinmæðina ef ekkert er að gerast og við sjáum smit gjósa upp og ríkisstjórnin hefur ekki nein svör.

Ég minni á að nokkrum klukkutímum áður en við lögðum fram frumvarpið átti ég í óundirbúnum fyrirspurnatíma samræður við hæstv. forsætisráðherra og spurði hana nákvæmlega hvort við ættum von á aðgerðum af þeirra hálfu. Svarið var: Ja, við ætlum að bíða og sjá og skoða hlutina. Þá fannst mér augljóst að við gætum ekki beðið lengur og við yrðum bara að koma með okkar frumvarp. Þá bregður auðvitað svo við að klukkutíma seinna er tilkynnt í einhverjum fjölmiðlinum að þetta verði rætt daginn eftir á ríkisstjórnarfundi og síðan var Harpa leigð, dreglarnir dregnir út og þetta var tilkynnt, en á svo ruglingslegan hátt að forsætisráðherra skildi það ekki, hæstv. fjármálaráðherra skildi það ekki. Þannig að hlutirnir eru einhvern veginn mjög flóknir og illa augljósir.

Ég held að ég fari rétt með ef ég svara seinni spurningu hv. þingmanns þannig að það hafi einfaldlega ekki náðst samstaða innan velferðarnefndar til að nefndin sjálf legði frumvarp fram, eins og hefði kannski verið betra og hraðast.