151. löggjafarþing — 83. fundur,  22. apr. 2021.

sóttvarnalög og útlendingar.

747. mál
[02:55]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð nú að viðurkenna að hugsanlega er ósanngjarnt af mér að fara í andsvar við hv. þingmann, en hv. þingmaður var í nefndinni og er reyndar formaður hennar, en hv. 11. þm. Suðvest. slapp hérna úr pontu áður en mér tókst að spyrja hann og þetta ágæta plagg var ekki komið á vefinn þegar hv. þingmaður hafði lokið ræðu sinni. Þannig að ég verð að spyrja einhvern annan þingmann sem var í nefndinni hvort það hafi ekki einmitt verið lögfræðingar og lögfrótt fólk sem er hér listað upp sem hafi mætt á fund nefndarinnar og gefið einhver álit sem ættu kannski heima í nefndaráliti meiri hluta eða 1. minni hluta eftir atvikum. Mig langaði að spyrja hv. þingmann hvort eitthvað hefði komið þar fram sem ætti venjulega heima í nefndaráliti meiri hluta eða 1. minni hluta.