151. löggjafarþing — 85. fundur,  26. apr. 2021.

árásir Samherja á fjölmiðlafólk.

[13:33]
Horfa

Olga Margrét Cilia (P):

Takk fyrir þetta, þótt það hafi ekki verið spurningin mín. En ég er vissulega sammála því að tryggja þurfi rétt þjóðarinnar yfir auðlindum hennar. Þetta frumvarp, sem nú liggur fyrir um einkarekna fjölmiðla, nær einfaldlega ekki nógu langt. Það hafa komið gestir bæði frá smærri og stærri fjölmiðlum, þeir smærri segja að þeir stærri muni fá mestmegnis af þessum peningum og þeirri stærri hafa helst viljað tala um að það þurfi að taka RÚV af auglýsingamarkaði.

Mér finnst líka áhugavert að það muni koma sér illa fyrir Samherja, á hinum frjálsa markaði býst ég við. Það virkar bara því miður ekki þannig, því að þetta félag hefur gríðarlega mikil völd í krafti þess að það er fullt af fólki sem byggir atvinnuöryggi sitt á því að vera í vinnu hjá því.

Það er mikilvægt að grípa til aðgerða. Ég kalla eftir því hvað hæstv. ráðherra ætlar að gera til að stemma stigu við óeðlilegu eignarhaldi auðmanna og hagsmunahópa á Íslandi á fjölmiðlum. Hvernig ætlar ráðherra að tryggja að samfélagið geti treyst á að fjölmiðlar geti veitt stjórnkerfinu og þeim sem fara með auðlindir þjóðarinnar aðhald?