151. löggjafarþing — 85. fundur,  26. apr. 2021.

aukið samstarf Grænlands og Íslands.

751. mál
[18:44]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa þingsályktunartillögu sem gengur út á það að fylgja eftir tillögum í Grænlandsskýrslunni margumræddu, en þær eru allmargar, 99 talsins, að ég held, þetta er stór og þykk bók. En það fer ekkert mjög mikið fyrir þingsályktunartillögunni enda er skýrslan bara viðauki. Ég velti því aðeins fyrir mér hvernig haldið verður utan um þetta og hvet hæstv. ráðherra til að finna farvegi fyrir það innan ráðuneytisins hvernig eigi að gera það. Hér er verið að tala um rammasamning milli landanna og ég tel að það sé mikilvægt og tímabært. Mér fannst að mörgu leyti áhugavert það sem dregið var fram í skýrslunni hvað við værum í litlu samstarfi. Ég taldi það vera þó nokkurt. Ég þekki ágætlega til á Grænlandi og í grænlenskum stjórnmálum, hafandi setið í Vestnorræna ráðinu núna í fimm ár. Það kom mér á óvart það sem er dregið þarna fram, það er ekki markvisst samstarf á mörgum vettvöngum þar sem eðlilegt væri að eiga mikið samstarf.

Ég hef fyrir mitt leyti lagt áherslu á viðskiptasambönd og fríverslunarsamninga og finnst það mjög mikilvæg tillaga og ég vona að hún náist í gegn. Á vettvangi Vestnorræna ráðsins var á tímabili rætt um Hoyvíkursamninginn svokallaða, sem er fríverslunarsamningur milli Íslands og Færeyja, og oft og tíðum hef ég viðrað það við grænlenska vini mína, þingmenn þar, hvort þeir vilji ekki vera með okkur í þessu öllu. Það hefur verið rosalega lítill áhugi á því og það hefur í raun kom mér á óvart. Ég trúi því að alþjóðaviðskipti og tækifæri Íslands til að gera fríverslunarsamninga við aðrar þjóðir sé það sem hér skapi hagvöxt og tryggi sjálfstæði okkar sem lands. Ég hefði talið að það félli að sama skapi vel að vilja Grænlendinga til að verða sjálfstæðari, þ.e. að ýta undir alþjóðaviðskipti og gera fríverslunarsamninga við fleiri þjóðir.

Ég ætla líka að viðurkenna það, virðulegur forseti, að maður veltir fyrir sér hver viðbrögðin verði í Danmörku, kannski einmitt í tengslum við það sem ég fór yfir áðan þegar ég var að ræða um þingsályktanir út frá Vestnorræna ráðinu. Við minnumst þess að utanríkisráðherra Danmerkur var ekki par ánægður með samstarfssamning sem gerður var á milli utanríkisráðherra Íslands, Færeyja og Grænlands á sínum tíma þegar við í Vestnorræna ráðinu lögðum það til og fengum þá í þá vegferð með okkur. Sú sem hér stendur virðist nú vera orðin sérstakur talsmaður sjálfstæðis Grænlendinga þegar kemur að alþjóðavettvangi, hafandi unnið svona mikið með Grænlendingum og átt í samstarfi við þá. En ég hygg að tækifæri Grænlendinga séu gígantísk. Þetta er ofboðslega auðug þjóð, bæði af auðlindum en ekki síður náttúrufegurð. Þetta er einstakt land hvað það varðar. Ég hygg að mikil tækifæri séu fólgin í því að markaðssetja það og selja og leyfa öðrum að njóta. En á sama tíma er það líka mikil jafnvægisvinna þegar kemur að því að ýta undir ferðaþjónustu á Grænlandi þar sem augljóslega eru tækifæri en líka mjög viðkvæm náttúra. Við höfum átt samtal um þetta á vettvangi Vestnorræna ráðsins, héldum sérstaka þemaráðstefnu um ferðaþjónustu, og þá voru þeir mjög áfjáðir í að læra af Íslendingum en líka að læra af mistökum okkar Íslendinga í þessum efnum.

Ég ætla nú ekki að lengja þessa umræðu. Ég fagna því að þessi tillaga sé komin fram og vil leggja mína áherslu á mikilvægi þess að við náum fríverslunarsamningi milli landanna og ýtum enn frekar undir viðskiptasambönd á milli íslenskra og grænlenskra fyrirtækja, þó að þau séu einhver nú þegar. Það er auðvitað þannig og maður finnur það, ég hef átt samtöl við aðila á Grænlandi sem hafa verið í viðskiptaráði Grænlands og eru að leita eftir erlendri fjárfestingu og erlendu samstarfi, að þeir vilja líka fara mjög varlega í þeim efnum, sem er alveg skiljanlegt. Það er mikil ásókn erlendra stórríkja á Grænlandi. Það sjá margir þessi tækifæri. Við vitum af bæði Kínverjum og Bandaríkjamönnum og nú er ég ekki bara að tala um einhverja Trump-brandara því að það er áberandi hvað sendiráð Bandaríkjanna í Nuuk er orðið fjölmennt og mikið af sendinefndum sem koma þangað reglulega. Þá er líka gott til þess að hugsa að Grænlendingar líta á okkur sem vini og bandamenn og í því felast ákveðin tækifæri og mikil vinátta sem rétt er að rækta með góðum hætti.