151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

lögreglulög o.fl.

365. mál
[15:02]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég hef reynt að vera bjartsýnn þegar kemur að vilja þingsins til að auka eftirlit með lögreglu, sér í lagi sjálfstætt eftirlit með lögreglu. Ég hygg ekki að því sé náð, því miður, með þessu máli og lít svo á að málaflokkurinn sé enn opinn. Það þarf að efla eftirlit með lögreglu meira en þetta, mikið meira, og ég óttast að þessar breytingar hafi í för með sér að fólk haldi að við höfum náð einhverjum stórsigri í þeim efnum þegar svo er því miður ekki. Af þeim sökum ætla ég að sitja hjá við atkvæðagreiðslu um málið, ég ætla reyndar að greiða atkvæði gegn einni tiltekinni grein, sem ég skýri kannski betur hér á eftir, en það er í þeirri von að við getum farið að sýna það í verki hér á Alþingi að við tökum það alvarlega að vald í samfélaginu, hvort sem það er af hálfu Alþingis eða af hálfu framkvæmdarvaldsins, þarf aðhald og mótvægi. Mér finnst ekki komið nógu mikið til móts við það í þessu máli.