151. löggjafarþing — 90. fundur,  5. maí 2021.

störf þingsins.

[13:13]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Framsóknarflokkurinn hefur allt síðastliðið ár lagt áherslu á stuðningsaðgerðir til að fleyta fólkinu í landinu í gegnum kreppuna sem Covid skapar. Nú þegar við sjáum til lands í glímunni við farsóttina er mikilvægt að missa ekki einbeitinguna. Með góðri samvinnu getum við haldið út og brúað síðustu vikurnar með lokaspretti sem tengir saman aðgerðir, viðheldur tekjum fólks og auðveldar fyrirtækjum að hefja vöxt. Stjórnvöld kynntu fyrir helgi á annan tug aðgerða, þar á meðal verða lokunarstyrkir framlengdir, fleiri geta sótt um viðspyrnustyrki, endurráðningar í fyrra starfshlutfall eru styrktar, bætt í ýmsar félagslegar ráðstafanir og úrræðum í menntakerfinu fram haldið.

Mikilvægt er að fjárfesta í fólki og tryggja afkomu heimila en samt samhliða því þarf að vinna gegn neikvæðum áhrifum faraldursins á einstaklinga. Það er best gert með því að tryggja fólki tækifæri til sjálfseflingar, hvort sem er í gegnum nám, félagslega þátttöku eða þjónustu heilbrigðiskerfisins. Í gegnum allan faraldurinn hefur verið lögð áhersla á tækifæri til menntunar, þátttöku barna í íþróttum og ýmis félagsleg úrræði. Þess vegna er sérstaklega ánægjulegt að sjá núna að fjármagn verði aukið til geðheilbrigðismála, félagslegra aðgerða og menntunar. Úrræðin sem gripið hefur verið til hafa nýst samfélaginu vel. Nemendum hefur fjölgað bæði á framhalds- og háskólastigi á milli skólaára. Ljóst er að þar skipti yfirlýsing menntamálaráðherra í fyrravor sköpum. Þá var því lýst yfir að tekið yrði við öllum nemum og fjármagn tryggt til kennslu þeirra. Það liggur fyrir að þau mörgu félagslegu úrræði sem gripið hefur verið til hafa reynst vel, sérstaklega eru þau sem hafa verið ætluð til að efla viðkvæma hópa samfélagsins komin til að vera. Klárum leikinn saman.