151. löggjafarþing — 90. fundur,  5. maí 2021.

um fundarstjórn.

[13:48]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Það er mjög nauðsynlegt að hafa allar upplýsingar skýrar í þessu máli. Það er mjög undarleg ákvörðunartaka sem leiðir til þess að við sendum sýni til Danmerkur í svona mikilvægum málaflokki. Að það skuli hafa orðið niðurstaðan er eitt og sér mjög áhugavert. Það að ráðherra virðist hunsa þær varúðarkröfur sem voru settar í skýrslubeiðnina, um að hafa óháða aðila eða samráð við þingflokka, bendir til ákveðinna varnarstarfa af því að ákvörðunin var vissulega tekin þar. Ef ráðherra getur unnið skýrsluna sjálfur og ekki tekið inn þá aðila sem geta metið á óháðan hátt hvort tilefni var til að taka þau skref sem beðið er um að skoða þá er það ekki mjög góð framkvæmd.